Handbolti

Íslendingaliðið hóf undanúrslitin á sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson er leikmaður Kadetten Schaffhausen.
Óðinn Þór Ríkharðsson er leikmaður Kadetten Schaffhausen. Kadetten

Íslendingalið Kadetten Schaffhausen, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, vann góðan sex marka sigur er liðið tók á móti Pfadi Winterthur í fyrsta leik liðanna í undanúslitum svissnesku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag, 34-28.

Kadetten Schaffhausen og Pfadi Winterthur höfnuðu í öðru og þriðja sæti deildarkeppninnar á tímabilinu og því ljóst að um spennandi undanúrslitaeinvígi var að ræða.

Heimamenn í Kadetten, með Óðinn Þór Ríkharðsson fremstan í fylkingu tóku þó völdin snemma leiks og náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik. Liðið leiddi með sjö mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 21-14, og stefndi í að Kadetten myndi vinna auðveldan sigur.

Gestirnir voru þó ekki á því að gefast upp og mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik. Liðsmenn Pfadi Winterthur skoruðu tíu af fyrstu tólf mörkum seinni hálfleiksins og náðu forystunni í stöðunni 23-24. Þá tóku heimamenn hins vegar við sér á ný, náðu tökum á leiknum á nýjan leik og unnu að lokum sex marka sigur, 34-28.

Óðinn Þór Ríkharðsson var eins og svo oft áður drjúgur í markaskorun fyrir Kadetten og skoraði tíu mörk í kvöld.

Kadetten leiðir því einvígið 1-0 eftir leik dagsins, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×