Sport

„Heppin að fá að læra af þeirri bestu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólveig Sigurðardóttir ætlar sér að komast á heimsleikana annað árið í röð.
Sólveig Sigurðardóttir ætlar sér að komast á heimsleikana annað árið í röð. @solasigurdardottir

Anníe Mist Þórisdóttir og Sólveig Sigurðardóttir eru á fullu að undirbúa sig fyrir undanúrslitamótið í byrjun næsta mánaðar en það mót fer fram í Berlín og ræður því hvort þær komast á heimsleikana í CrossFit í ár.

Sólveig flutti heim til Íslands fyrir þetta CrossFit tímabil og nýtur þess að fá að æfa með reynsluboltanum Anníe Mist.

Sólveig og Anníe voru báðar með á heimsleikunum í fyrra en Sólveig náði þar næstbestum árangri íslenskra kvenna og Anníe varð í fjórða sæti í liðakeppninni. Sólveig hefur byggt ofan á þennan árangur með góðri frammistöðu í undankeppni heimsleikanna á þessu tímabili og Anníe hefur enn á ný sýnt af hverju hún er mjög ofarlega á listanum yfir bestu CrossFit konur sögunnar.

Að þessu sinni ætla þær sér báðar inn á heimsleikana í einstaklingskeppninni og samkeppnin verður hörð um lausu sæti á undanúrslitamótinu.

Sólveig lætur mjög vel af því að æfa með Anníe í aðdraganda mótsins.

Hún setti inn myndband af þeim að keyra hvora áfram á einni af æfingunum í CrossFit Reykjavík. Þar var vel tekið á því eins og jafnan þegar alvöru íþróttakonur koma saman.

„Þakkarpóstur. Þessi stelpa setur pressu á mig að vera betri á hverjum degi. Ég er heppin að fá að læra af þeirri bestu,“ skrifaði Sólveig Sigurðardóttir eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×