Lífið

Ofurmóðirin María sem eignaðist sex sinnum tvíbura

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Afkomendur Maríu og Ólafs eru um fimmhundruð.
Afkomendur Maríu og Ólafs eru um fimmhundruð.

María Rögnvaldsdóttir er að öllum líkindum sú íslenska kona sem hefur oftast eignast tvíbura, eða sex sinnum. Á sextán árum eignaðist María 15 börn með eiginmanni sínum Ólafi Hálfdánarsyni, þrjá einbura og sex tvíbura. Auk þess tóku hjónin að sér einn fósturson og ólu hann upp með barnahópnum. Geri aðrir betur. 

María er til umfjöllunar í lokaþætti Tvíbura á RÚV í kvöld. Þar rýnir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir í arfgengi þess að eignast tvíbura auk þess sem sýnt verður brot úr um hundrað ára gömlu viðtali við Maríu ofurtvíburamömmu.

María fæddist á Svarfhóli í Álftafirði 1891. Henni er lýst sem mikilli mannkostakonu og hetju en María lifði til 98 ára aldurs og var aldursforseti Bolvíkinga þegar hún lést. Í minningargrein sem Pétur Pétursson, héraðslæknir, skrifaði um Maríu segir. 

María er sannkölluð ofurkona.

„Ekki fékk ég tækifæri til að kynnast Maríu neitt að ráði, fyrr en hún var komin á tíræðisaldur. Þótt ég ætti að heita læknir hennar frá 1974, þá sá ég hana sárasjaldan, því ekki var hún kvellisjúk og taldi það lítt til heilsubótar fallið að æða til læknis vegna smákvilla eða vera sífellt að gleypa eitthvert meðalasull. Mér varð þó snemma ljóst af afspurn, að heilsuhreysti Maríu var líffræðilegt undur.“

Fimmhundruð afkomendur

Afkomendur Maríu og Ólafs eru um fimmhundruð. Reynir Hlíðar Jóhannsson, dóttursonur Maríu, segir ömmu sína hafa verið sér mikil fyrirmynd og minnist þess aldrei að hafa heyrt hana kvarta. „Amma var stórkosleg manneskja í alla staði. Hún reyndist mér og öllum einstaklega vel. Hún og afi voru indælisfólk. Þau eru bæði ættuð innan úr Djúpi þar sem þau bjuggu fyrst um sinn og ég held að flest tvíburapörin séu fædd þar. Svo fluttu þau í Tröð, sem er rétt fyrir ofan Bolungarvík,“ segir Reynir Hlíðar.

Reynir Hlíðar með ömmu sinni Maríu

Jónína Guðmundsdóttir, barnabarn Maríu, tekur í sama streng og segir að amma hennar og afi hafi verið samrýmd hjón. „Amma stjórnaði náttúrulega öllu en hún var hörkukona fram eftir öllu. Á þeim tíma sem börn ömmu og afa voru að ala sín börn upp bjuggum við flest í Bolungarvík þannig að þá má í raun segja að við höfum verið hálft bæjarfélagið,“ segir Jónína. 

Hún bætir við að hún haldi að tvíburamet ömmu sinnar hafi ratað í heimsmetabókina á sínum tíma.

Einnig fjölbura amma

Oftast var ekki nema hálft annað ár á milli barna Maríu og Ólafs og flest voru þau í kringum 16 merkur. Allir tvíburarnir voru tvíeggja og komust á legg nema ein stúlka sem lést skömmu eftir fæðingu. Tvær dætur Maríu eignuðust einnig fjölbura, önnur þeirra eignaðist tvíbura og hin þríbura. Í lokaþætti Tvíbura í kvöld fá landsmenn svör við því hvers vegna sumir eru líklegri til að eignast tvíbura en aðrir. 

Í þættinum verður meðal annars skyggnst inn í líf fjölskyldu á Vopnafirði sem hefur fengið þennan lottóvinning, tvo fyrir einn, í þrígang á síðustu árum.


Tengdar fréttir

Farsælir íslenskir tvíburar

Tvíburar hafa verið á margra vörum síðustu vikur eftir að sjónvarpsþættir Ragnhildar Steinunnar um tengsl og samfylgd tvíbura í gegnum lífið fór í loftið. Fjölmargar erlendar stjörnur eru tvíburar, má þar til dæmis nefna Elvis Presley, Scarlet Johansson, Vin Diesel, Gisele Bündchen, Ashton Kutcher og Kiefer Sutherland. Vísir tók saman lista yfir farsæla Íslendinga sem eru tvíburar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×