Viðskipti innlent

Eyjólfur Árni endur­kjörinn for­maður með 99 prósent at­kvæða

Atli Ísleifsson skrifar
Eyjólfur Árni Rafnsson verður áfram formaður Samtaka atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson verður áfram formaður Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Vilhelm

Eyjólfur Árni Rafnsson var endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi samtakanna í dag. 

Á vef SA segir að Eyjólfur Árni hafi verið endurkjörinn með 98,95 prósent greiddra atkvæða í rafrænni kosningu sem fór fram í aðdraganda fundarins.

Í þrjátíu ár hefur Eyjólfur sinnt stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi en hann er byggingarverkfræðingur að mennt. Hann var forstjóri Mannvits hf. og forvera þess félags í tólf ár til ársloka 2015. Hann hefur verið í stjórn SA frá 2014 og í framkvæmdastjórn frá 2016. Þá hefur hann verið formaður síðan árið 2017.

Ný inn í stjórn samtakanna koma Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Páll Erland, forstjóri HS veitna, og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri B. M. Vallár ehf.

Í ávarpi Eyjólfur Árni sagði hann að samkeppnishæfni skipti öllu máli fyrir fyrirtækin og möguleika þeirra til að standa undir hækkandi launum, sköttum og skyldum. 

„Stjórnvöldum ber að tryggja að efnahagsumhverfið og regluverk sé svipað og jafnvel hagstæðara en í samkeppnislöndunum. Útflutnings- og samkeppnisgreinarnar skipta öllu við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og ráða miklu um hvernig tekst að búa almenningi góð og sífellt betri lífsskilyrði,“ er haft eftir Eyjólfi Árna á vef SA. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×