Hún hefur stundum verið kölluð Jane Fonda Íslands enda má segja að Gerður, eða Gerða eins og hún er alltaf kölluð, hafi síðustu ár hrundið af stað nokkurs konar dans-eróbikk æði á meðal íslenskra kvenna.
Gerða er þriggja barna móðir og trúlofuð ástinni sinni til þrettán ára Alexander Jenssyni. Hún er með BS gráðu í íþróttafræðum og Med (master) í heilsuþjálfun og kennslu. Hún hefur auk þess lokið einkaþjálfararéttindum og má með sanni segja að heilsa og þjálfun eigi hug hennar allan.
Námskeiðin hennar In Shape, sem hún kennir í World Class, hafa vakið miklar vinsældir síðustu ár og segir Gerða eins og myndast hafi nokkurs konar kvennasamfélag í kringum námskeiðin sem yfirleitt eru mjög þétt setin.
Tímarnir hafa einnig vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum þar sem má sjá margar áberandi konur úr ólíkum áttum samfélagsins svitna saman í trylltum takti undir leiðsögn Gerðu.
Þær eru allar að tengjast á einhvern ótrúlega heilbrigðan hátt. Ég sé þær vera að leita til hvor annarar, vinna saman og benda á hvora aðra, það myndast svona þessi heild.
Í viðtalinu, sem hægt er að nálgast hér fyrir neðan, segir Gerða meðal annars frá æskuárunum í sveitinni, systurmissinum og hvernig íþróttirnar hafi í raun bjargað henni á sínum tíma.
Gerða elst upp í stórri fjölskyldu í Mosfellsdal og segist hún mjög þakklát í dag fyrir að hafa fengið að slíta barnsskónum í sveitinni.
Þegar ég var unglingur fannst mér þetta samt hræðilegt, segir Gerða og hlær.
„Bara að komast og hitta vinina var smá vesen, maður var kannski svolítið einangraður þá.“
Þakklát fyrir tímann með systur sinni
Gerða á tvo hálfbræður og þrjár eldri hálfsystur og eru tvær þeirra nú fallnar frá. Eldri systir hennar, sem átti stelpu á svipuðum aldri og Gerða, lendir í bílslysi og segir Gerða áfallið hafa verið gríðarlegt.
Hún var undir áhrifum og var að keyra, lendir framan á öðrum bíl og deyr samstundis.
Gerða segir systur sína og dóttur hennar hafa búið heima hjá fjölskyldunni vikurnar áður en slysið bar að og er hún mjög þakklát fyrir þann tíma sem hún fékk að eyða með henni.
„Þetta var auðvitað dýrmætt og við áttum góðar stundir saman í lokin en þetta var auðvitað ótrúlega mikið áfall.“
Hefði vilja fá meiri aðstoð
Aðspurð hvernig henni hafi tekist að vinna sig út úr áfallinu og sorginni segist hún sjá það í dag hvers hún hafi í raun farið á mis við. Áfallahjálp eða annars konar fagleg aðstoð var ekki eitthvað sem var í boði.
Það var einhvern veginn enginn og maður dílaði bara við þetta og hélt áfram, sem manni þótti kannski bara eðlilegt miðað við hvaða umhverfi maður kom úr. En þegar maður hugsar til baka og sér hversu umræðan er opin núna þá hefði ég viljað fá meiri aðstoð.
Ekki gangur lífsins fyrir foreldra að missa barn
Fyrir nokkrum árum lést svo önnur systir Gerðu frekar skyndilega úr krabbameini og segir hún það taka tíma að læra að lifa með sorginni. Einnig sé það átakanlegt að upplifa sorg foreldra sinna.
„Það er ekki gangur lífsins fyrir foreldra að missa barn og hvað þá tvö. Þetta er ótrúlega erfið lífsreynsla og að sama skapi að horfa á foreldra sína syrgja svona.“
Gerða segir þessi áföll og sorg hafi að sjálfsögðu hafa mótað sig að miklu leiti og hún minni sig reglulega á að taka engu sem sjálfsögðu og að njóta litlu hlutanna.
Það tók mig tíma að sjá þetta sem styrk. En núna er ég komin á þann stað að ég sé að ef ég hefði ekki gengið í gegnum hitt og þetta í lífinu væri ég líklega á þessum stað sem ég er í dag.
Viðtalið við Gerðu í heild sinni er hægt að nálgast í spilaranum ofar í greininni en þar talar hún um æskuárin, íþróttaferilinn og margt, margt fleira.