Lífið

„Ungt fólk er að deyja hratt núna“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristján hefur unnið með starfshópi heilbrigðisráðuneytisins um afglæpavæðingu fíkniefna.
Kristján hefur unnið með starfshópi heilbrigðisráðuneytisins um afglæpavæðingu fíkniefna.

Áfengi er ekki betra en önnur vímuefni þó það sé löglegt og venjulegt fólk sem vill leita sér hjálpar þorir því ekki vegna fordóma og hættunnar á að missa vinnuna.

Þetta segir skaðaminnkunar-aðgerðasinninn Kristján Ernir Björgvinsson sem barist hefur fyrir afglæpavæðingu neysluskammta. Rætt var um málið og umdeildar skoðanir Kristjáns í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Þetta er búið að vera vandi í mjög langan tíma og það eru margir búnir að vera tala um það, sérstaklega notendur og þeir sem eru að berjast í þessum málaflokki. Það er búið að vera láta vita af þessum ópíóíða faraldri í mörg mörg ár. Það er byrjað að tala um þetta núna af því að ungt fólk er að deyja hratt núna,“ segir Kristján og heldur áfram.

„Við höfum verið með rosalega háar ofskömmtunartölur í svolítið langan tíma og fólki virðist bara vera alveg sama.“

35 einstaklingar sem hafa fengið meðferð á Vogi á árinu hafa látist vegna faraldursins.

„Það þurfa bara hræðilegir hlutir að gerast svo að við allt í einu kveikjum á perunni og mér finnst það ekki í lagi. Fólk heldur svolítið að þetta sé lítill afmarkaður hópur af mjög jaðarsettum einstaklingum eða heimilislaust með mjög mikinn félagslegan vanda sem sé að deyja. Af minni upplifun er það ekki þannig núna. Hópurinn sem er í stærstu áhættunni núna er þessi hópur sem er fúnkerandi, er að halda vinnu og hefur miklu að tapa ef þau sækja sér aðstoðar. Það er mjög hrætt við það að sækja sér aðstoðar og ég þekki mjög mörg dæmi,“ segir Kristján sem veit til þess að fólk sem notar vímuefni á skemmtanalífinu og finni síðan fyrir ákveðnum óþægindum sé hrætt við að sækja sér hjálpar af hræðslu við að það myndi fréttast og aðilinn myndi í kjölfarið missa vinnuna.

Margir hafa tapað lífinu í baráttunni við fíkniefni.

„Ég þekki fullt af fólki sem er bara mjög flott og ábyrgt fólk sem notar vímugjafa aðra en áfengi. Áfengi hentar ekki öllum sem vímugjafi og það er rosalega súrt að við séum að refsa fólki sem notar ekki vímugjafa sem passar ekki inn í okkar rammaða kerfi. Flestir vímuefnanotendur sem ég þekki eru að standa sig frekar vel í lífinu.“

Hann segir að það sé hræsni að halda því fram að það sé í lagi að nota vín en ekki aðra vímugjafa og að notandi víns sé ekki betri en þeir sem nota aðra vímugjafa.

„Áfengi er rosalega óhentugur vímugjafi fyrir rosalega marga. Víman er rosalega lengi og þú getur misst mikla stjórn. Það eru bara sumir sem fíla kannabis eða amfetamín betur og það getur verið bara skaðminna fyrir þau. Hver erum við að segja hvaða vímugjafi hentar hverjum og einum besta. Það er fólk sem ég þekki sem er eðlilegt, fúnkerandi og kýs það frekar að reykja gras um helgar og mér finnst það bara allt í lagi.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×