Guðrún Sólveig er öllu vön þegar kemur að háum einkunnum og jafnvel sögulegum. Fyrir tveimur árum brautskráðist hún með BA próf frá deildinni með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í lagadeild Háskóla Íslands, 9,33.
Sjálf segist Guðrún ekki hafa búist við slíkum árangri.
„Maður býst alltaf við því að ganga verr en gengur síðan,“ segir hún í samtali við Vísi.
Prófdómari var Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti hæstaréttar.
Vernd eignarréttar skoðuð
Ritgerð Guðrúnar ber titilinn Sambúð 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu: Standa rök til breytinga á nálgun íslenskra dómstóla? og fjallar um samspil 72. greinar stjórnarskrárinnar og 1. greinar 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Í ritgerðinni er vernd eignarréttar samkvæmt íslenskum rétti borin saman við vernd eignarréttar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Hún kannar hvort rök standi til þess að breyta aðferð íslenskra dómstóla við mat á stjórnskipulegu gildi eignarskerðinga með hliðsjón af nýlegri þróun á vettvangi Mannréttindadómstólsins. Áhugasamir geta lesið hana á Skemmunni.
Lokamarkmiðið að verða dómari
Samhliða laganáminu hefur Guðrún unnið á LEX lögmannastofu síðastliðin tvö ár.
„Mér líður mjög vel þar þannig að ég ætla að halda áfram að vinna þar, örugglega í málum á sviði eignarréttar.“
Guðrún heldur því opnu að þreyta lögmannsréttindin næsta vor. Jafnvel fari hún til Bandaríkjanna í LL.M nám eftir að hafa aflað sér smá reynslu heima á Íslandi.
Aðspurð hvort hún eigi sér eitthvað draumastarf í lagaheiminum segist hún eiga það lokamarkmið að verða dómari. En það verði þó ekki strax.
Keppir í málflutningi á dönsku
Að auki mun Guðrún ásamt fjórum öðrum laganemum Háskóla Íslands keppa í norrænu málflutningskeppninni í næsta mánuði. Þar flytja þau mál á dönsku í kappi við nema frá hinum Norðurlöndunum.
„Við erum að keppa á dönsku sem er mjög fyndið því maður kann eiginlega bara einhverja menntaskóladönsku,“ segir Guðrún sem þó talar sex tungumál.
Góður leiðbeinandi lykilatriði
Guðrún tekur það sérstaklega fram að hún á leiðbeinanda sínum Víði Smára Petersen, dósent við lagadeild Háskóla Íslands mikið að þakka.
„Hann vakti áhuga minn algjörlega á þessu efni og í rauninni bara eignarréttinum sem réttarsviðs. Það væri erfitt að gera þetta með einhverjum öðrum leiðbeinanda.“
Hún brýnir mikilvægi góðs og áhugasams leiðbeinanda.