Veður

Dregur úr vindi í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Gular veðurviðvaranir eru áfram í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Gular veðurviðvaranir eru áfram í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt á landinu í dag, tíu til átján metrum á sekúndu en hægari um tíma á Norðurlandi. Víða verða skúrir eða slydduél en skýjað með köflum suðvestantil en birtir til þar er líður á daginn.

Gular veðurviðvaranir eru áfram í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi, Suðausturlandi, Miðhálendi og Austurlandi að Glettingi fram eftir degi.

Áfram er svalt í veðri og verður hiti á bilinu sex til fjórtán stig.

„Dregur úr vindi í kvöld, en á morgun gengur í suðvestan 8-13 m/s með skúrum. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast suðaustantil.“

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vestan og suðvestan 8-15 m/s og skúrir, en lengst af þurrt austast. Hiti 7 til 12 stig.

Á föstudag: Suðlæg átt 5-13 m/s, hvassast við suðausturströndina. Rigning eða súld með talsverðri eða mikilli úrkomu sunnan- og vestantil, en úrkomminna austanlands. Hiti 7 til 14 stig.

Á laugardag: Ákveðin norðvestanátt og rigning eða slydda, en úrkomuminna um vestanvert landið. Léttir til seinni partinn. Heldur kólnandi.

Á sunnudag og mánudag: Suðvestlæg átt með ringingu eða súld, en úrkomuminna austanlands. Hlýnandi.

Á þriðjudag: Útlit fyrir suðlæga átt og rigningu með köflum, en að mestu bjart norðaustan- og austantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×