Lífið

„Þær litu hvorki til hægri né vinstri“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gæsahjónin gengu um íbúðagötuna við Miklubraut hinumegin við Klambratún í morgun með ungunum sínum sjö.
Gæsahjónin gengu um íbúðagötuna við Miklubraut hinumegin við Klambratún í morgun með ungunum sínum sjö. Arngrímur Ísberg

„Nei, ég er bara alveg undrandi,“ segir eldri borgarinn og fyrr­verandi héraðs­dómarinn Arn­grímur Ís­berg hlæjandi í sam­tali við Vísi spurður að því hvort hann hafi búist við því að mynd hans af gæsa­fjöl­skyldu í Hlíðunum myndi vekja eins mikla athygli og raun ber vitni.

„Ég held þetta sé að nálgast eitt­hvað á þriðja þúsundið þegar allt er talið,“ segir Arn­grímur og vísar til fjölda þeirra sem brugðist hafa við mynd hans inni á Face­book hópi íbúa Hlíða­hverfis. Þar birti hann mynd af fjölskyldunni í morgun.

Komu spásserandi niður götuna

„Ég var bara úti á götu að týna rusl og var litið upp og þá koma þær spásserandi á móti mér,“ segir Arn­grímur.

„Þær litu hvorki til hægri né vinstri og voru ein­beittar og gengu bara yfir götuna. Svo kom bíll að neðan og hann þurfti bara að gjöra svo vel og stoppa á meðan þær fóru sína leið.“

Arn­grímur segist ekki hafa séð fjöl­skylduna áður í götunni. Sjónar­spilið hafi því komið vel á ó­vart.

Arngrímur er dýravinur mikill og gladdist við að sjá gæsafjölskylduna í morgun, rétt eins og fleiri íbúar í Hlíðunum.

„Þær birtust þarna bara eins og að himnum ofan. Maður var alltaf að sjá gæsir allan ársins hring en ég hef aldrei séð unga hérna áður, enda er ekkert vatn hérna ná­lægt, ekki einu sinni skurður,“ segir Arn­grímur og bætir því við að hann hafi verið fljótur að taka upp símann til að mynda þær.

Dvalar­staður við Kringluna

„Ég náði frá­bærri mynd í þriðju til­raun. Núna er fjöl­skyldan horfin á braut, ég veit ekki hvert hún fór enda passaði ég mig á því að vera ekkert að trufla. For­eldrarnir þurfa frið til þess að koma ungunum á flot.“

Eins og áður segir vakti mynd Arn­gríms af fjöl­skyldunni gríðar­lega at­hygli. Svo virðist vera sem fjöl­skyldan eigi sér sama­stað í beði við líkams­ræktar­stöðina World Fit við Kringluna.

Það er út­varps­maðurinn Atli Már Steinars­son sem opin­berar þetta en hann tjáir sig við færslu Arn­gríms og segist hafa fylgst með gæsa­fjöl­skyldunni í nokkrar vikur. „Gleður mig mjög mikið þegar ég sá að ungarnir voru búnir að klekjast út og séu vonandi á leið á betri stað til að búa á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.