Veður

Ekkert ferða­veður á morgun og hinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Það er ekkert ferðaveður þó þetta sé mikil ferðahelgi.
Það er ekkert ferðaveður þó þetta sé mikil ferðahelgi. Vísir/Vilhelm

Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi fram eftir degi. Veðurfræðingur segir enn eina lægðina á leið til landsins en veður eigi að batna eftir helgi.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Austfjörðum vegna norðvestan storms eða roks. Má þar búast við 20 til 28 metrum á sekúndu fram eftir degi og allt að 35 metrum á sekúndu í hviðum. Viðvörunin er í gildi þar til klukkan þrjú síðdegis.

Á norðurlandi eystra var gul viðvörun í gildi fram á hádegi og til klukkan þrjú á Austurlandi að Glettingi. Á miðhálendinu og Suðausturlandi er gul viðvörun sömuleiðis í gildi til klukkan þrjú.

„Það er lægð sem var fyrir norðaustan land og er á leiðinni austur núna. Henni fylgdi norðvestan strengur sem að var nú á öllu Norðurlandi í nótt en er að færast austur á bóginn og hangir yfir Austurlandinu fram eftir degi,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Margir eru á ferðalagi um landið vegna Hvítasunnu.

„Það er ekkert ferðaveður búið að vera seinnipart gærdagsins, í nótt og í dag. Það verður aðeins betra í kvöld en svo snýst aftur í suðavestanátt á morgun og verður víða á bilinu átta til fimmtán metrar.“

Og það veður verði út mánudaginn. Þegar líði á vikuna ætti veður að batna.

„Útlitið fyrir vikuna er nokkuð gott víðast hvar á landinu. Það er útlit fyrir að hæð komi hér yfir landið með hægari vindi og þokkalegum hlýindum en útlit samt fyrir að það verði viðloðandi skýjaflákar eða -breiður við Vesturlandið,“ sagði Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.


Tengdar fréttir

Appel­sínu­gul við­vörun og úr­komu­svæði nálgast

Appelsínugul viðvörun er nú í gildi á Austfjörðum og gul víðar um landið. Á Austfjörðum er spáð norðvestan 20-28 metrum á sekúndu og gert ráð fyrir að vindhviður geti farið yfir 35 metra á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×