Peningar geta jafnvel verið erfið umræða í fjölskyldum, til dæmis þegar verið er að slá saman í gjafakaup eða þegar það er brúðkaup en fjölskyldur brúðhjóna eru fjárhagslega á mjög ólíkum stað.
Að ræða launamálin í vinnunni er líka erfitt og þótt kjaramál séu oftast fyrirferðarmikil í fréttum er svo stór hópur fólks í atvinnulífinu sem er ekki á launum samkvæmt kjarasamningum, heldur semur hver og einn um sín laun.
Spurningin er þá: Hvaða góðu ráð getum við fengið um þau samtöl?
Hér eru dæmi um nokkur góð ráð.
Fyrsta atriðið er undirbúningur. Hverjar eru væntingarnar þínar? Hver er óskastaðan? Hvað finnst þér réttlátt?
Annað er síðan: Hvað er verið að greiða fyrir sambærileg störf almennt á vinnumarkaðinum? Þetta er mikilvægt atriði því þegar það kemur að launasamtalinu skiptir miklu máli að vera með rökin á hreinu. Til dæmis er mjög mikilvægt að vera með rökstuðninginn þinn á hreinu því vinnuveitandi getur til dæmis aldrei greitt laun miðað við hvað þú þarft fyrir þitt heimili, gryfja sem margir falla í þegar verið er að tala um laun.
Þriðja atriðið er síðan að vera vel upplýstur og spyrja vinnuveitandann spurninga. Ef launasamtalið er vegna starfs sem þú ert mögulega að ráða þig í, skiptir miklu máli að þú sért vel upplýst/ur um hvað ætlast er til af þér í starfinu, er starfslýsingin skýr, vinnustundir eða vaktarplan skýrt og svo framvegis.
Þá hefur það löngum verið sagt að betra sé að nefna hærri tölu en lægri, því það er auðveldara að semja niður á við um laun og samninga.
Loks er gott að horfa á almenn atriði sem skipta þig máli varðandi þetta starf eða þennan vinnustað. Þessi atriði geta verið ótengd launasamtalinu sem slíku, en eru samt veigamikil fyrir þig kostnaðar- eða lífstílslega. Skiptir máli að vera nálægt vinnustaðnum, að sveigjanleiki sé til staðar í vinnutíma, að fjarvinna sé í boði, að matur sé niðurgreiddur í mötuneyti, að líkamsræktaraðstaða sé í boði og svo framvegis.
Hér má lesa ágætis grein um launasamtal og góð ráð í Harvard Business Review.