Tryggvi Gunnar Tryggvason, rafeindavirki, náði myndbandi af gestinum reyna að dingla bjöllunni. Sama dag sá hann fréttir af býflugnaher sem hafði tekið yfir götu á Manhattan og fannst það of mikil tilviljunin til að vekja ekki athygli á myndbandinu. Vísir ræddi við Tryggva um þennan uppáþrengjandi morgungest.
Þið vöknuðuð klukkan sjö við býflugu sem dinglaði bjöllunni eða hvað?
„Hún náði ekki að dingla þó hún hafi reynt það,“ sagði Tryggvi léttur í lund.
Hér má sjá myndbandið af býflugunni og þar fyrir neðan alla sólarsöguna.
Vildi komast í bakkelsið
Eins og margir eru Tryggvi og fjölskylda hans með myndavélar í kringum húsið sitt ef óvænta gesti ber að garði. Það eru þó ekki bara mennskir gestir sem kíkja í heimsókn.
„Við fáum viðvörun í símann að það sé einhver fyrir utan. Við erum með Ring-myndavélar sem láta vita að það sé einhver staðsettur fyrir utan. Þær sjá hreyfingu og það kemur melding um að það sé einhver persóna fyrir utan,“ sagði Tryggvi.
„Klukkan var varla orðin sjö þannig við vorum að velta fyrir okkur hver ætti erindi svona snemma morguns.“
„Á leiðinni fram í hurð tekur konan mín eftir því að þessi býfluga er að reyna að komast inn og hangir í myndavélinni. Hún vildi endilega koma í kaffi og er að baksa þarna í góðan tíma,“ sagði hann.
Hafa þið orðið mikið vör við býflugur þarna í kring?
„Þær eru dálítið í kringum húsið okkar. Oftast úti í garði, ekki þarna fyrir framan. Þessi vildi hins vegar greinilega komast í sætabrauð,“ sagði Tryggvi.
Þið hafið ekki hleypt býflugunni inn?
„Nei, hún fékk ekki að koma inn, ekki í þetta sinn,“ sagði Tryggvi léttur að lokum.