Sport

Sævar Atli verður áfram undir handleiðslu Freys

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sævar Atli í leik með Lyngby á síðasta keppnistímabili. 
Sævar Atli í leik með Lyngby á síðasta keppnistímabili.  Vísir/Getty

Sævar Atli Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta, hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarliðið Lyngby. 

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Lyngby í dag en liðið sem leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar hélt sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni í lokaumferð deildarinnar á nýlokinni leiktíð. 

„Ég hef ákveðið að framlengja samning minn við félagið einfaldlega vegna þess að ég elska Lyngby Boldklub. Ég nýt þess að mæta á æfingasvæðið á hverjum degi og hitta liðsfélaga mína og spjalla við þá sem vinna hjá félaginu,“ segir Sævar Atli um ástæðu þess að hann samdi við félagið til sumarsins 2025.  

Sævar Atli sem gekk til liðs við Lyngby frá Leikni Reykjavík sumarið 2021 og varð markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildnni á síðasta tímabili. 

„Mér finnst ég hafa þróast í rétta átt sem leikmaður þann tíma sem ég hef verið hjá félaginu og í raun bæði sem leikmaður og sem einstaklingur. Æfingasvæðið og kúltúrinn er í hæsta gæðaflokki og ég hlakka til að verða áfram hluti af leikmannhópi og þjálfaarateymi sem hefur það að markmiði að verða betri með hverjum degi sem líður,“ segir landsliðsframherjinn. 

„Dagurinn þar sem við héldum okkur uppi var ógleymanlegur og ég hef bundist stuðningsmönnum Lyngby sterkum böndum. Stuðningmsennirnir voru magnaðir á þeim degi líkt og alltaf. Nú verðum við að halda einbeitingu áfram og stefna að að gera enn betur á næstu leiktíð,“ segir Sævar Atli um framhaldið. 

Sævar Atli kom inná sem varamaður þegar Ísland tapaði fyrir Slóvakíu í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Íslenska liðið mætir svo Portúgal í næstu umferð undankeppninnar á þriðjudaginn kemur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×