Lífið

Datt úr lið við fagnaðar­lætin

Máni Snær Þorláksson skrifar
Til vinstri má sjá Henry er hann fagnar eftir að hafa giskað rétt í fyrstu tilraun. Til hægri má sjá stjórnanda þáttanna, Drew Carey.
Til vinstri má sjá Henry er hann fagnar eftir að hafa giskað rétt í fyrstu tilraun. Til hægri má sjá stjórnanda þáttanna, Drew Carey. Instagram/Getty/Matt Winkelmeyer

Karlmaður sem vann stóran vinning í bandaríska sjónvarpsþættinum The Price is Right slasaðist í fagnaðarlátunum er hann vann leik í þættinum. Eiginkona hans þurfti að koma upp á svið til hans til að hjálpa honum að klára leikinn.

Það var nokkuð góð ástæða fyrir fagnaðarlátunum hjá Henry, karlmanninum sem um ræðir, því honum tókst að vinna leikinn sem hann spilaði á örskömmum tíma. Leikurinn virkaði þannig að Henry átti að giska á hvort hver tölustafur í fjögurra stafa runu væri hærri eða lægri en upphæð vinningsins. Henry náði að giska rétt í fyrstu tilraun og hoppaði um í kjölfarið.

Í myndbandi sem birt var á Instagram-síðu sjónvarpsþáttarins er klippt síðar í þáttinn í miðjum fagnaðarlátunum. Þá útskýrir Drew Carey, stjórnandi þáttarins, að öxl keppandans hafi dottið úr lið er hann fagnaði. 

„Svo hann er ekki að fara að ná að snúa hjólinu en Alice ætlar að snúa því fyrir hann,“ segir Carey en Alice er eiginkona Henry. Um er að ræða hjól sem ákvarðar það hvort Henry komist áfram í þættinum. Alice snéri hjólinu og fékk 95 en erfitt er að fá hærri tölu en það er næsthæsta talan á hjólinu á eftir 100.

Að lokum fór það svo að Henry vann ferð til Hawaii. Óvíst er hvort ferð á bráðamóttökuna hafi verið innifalin í verðlaununum en í færslu sjónvarpsþáttarins á Instagram er tekið fram að í lagi sé með Henry eftir þetta allt saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×