Elon Musk bryddaði upp á hugmyndinni að slagsmálum á milli sín og Zuckerberg á Twitter. Þar sagðist hann til í að mæta hinum milljarðamæringnum í búrinu. Undanfarnar vikur hefur móðurfélag Facebook, Meta, unnið að þróun samfélagsmiðils sem verður í beinni samkeppni við Twitter og er töluvert líkari miðlinum en Facebook.
Zuckerberg, sem er eigandi Facebook og Instagram birti þá skjáskot af færslu Musk og bað Musk einfaldlega um að gefa upp staðsetningu á bardaganum. Svaraði hann því þá að þeir ættu að mætast í Vegas Octagon, bardagahöllinni í Las Vegas þar sem UFC bardagar fara fram.
„Ég er með þetta frábæra trikk sem ég kalla „rostunginn,“ þar sem ég ligg ofan á andstæðingnum og geri ekkert,“ skrifar Musk léttur í bragði á Twitter. Hann segist ekki hreyfa sig neitt að ráði, nema þegar hann leiki sér með börnunum sínum.
Mark Zuckerberg virðist hinsvegar vera í besta formi lífs síns, ef marka má fréttir breska ríkisútvarpsins. Hann hefur undanfarin ár stundað strangar æfingar í bardagaíþróttum líkt og jui jitsu.
I have this great move that I call The Walrus , where I just lie on top of my opponent & do nothing
— Elon Musk (@elonmusk) June 22, 2023