Sport

Dana White segir sam­tal um bar­daga hafið: Þeim er báðum dauðans al­vara

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mark Zuckerberg og Elon Musk gætu mæst í UFC-hringnum.
Mark Zuckerberg og Elon Musk gætu mæst í UFC-hringnum. Vísir/Getty

Dana White, forseti UFC, segir að Mark Zuckerberg og Elon Musk séu báðir tilbúnir að mætast í UFC hringnum. Hann segir að bardaginn yrði sá stærsti í sögunni.

Elon Musk bryddaði upp á hug­myndinni að slags­málum á milli sín og Zucker­berg á Twitter. Þar sagðist hann til í að mæta hinum milljarða­mæringnum í búrinu. Þetta gerði hann í kjölfarið á því að Zuckerberg tilkynnti að fyrirtæki hans Meta ætlaði sér að koma á laggirnar samfélagsmiðli í beinni samkeppni við Twitter.

Þegar Musk stakk upp á bardaga á milli þeirra svaraði Zuckerberg og bað hann um að nefna stað og stund. Nú vill Dana White forseti UFC meina að þeir félagar séu ekkert að grínast með þessa hugmynd.

„Ég talaði við Mark og Elon í gær. Þeim er báðum dauðans alvara,“ sagði White en þetta kemur fram í frétt TMZ. White segist viss um að bardagi Musk og Zuckerberg yrði sá stærsti í sögunni.

„Stærsti bardaginn nokkurn tímann er Floyd Mayweather á móti Conor McGregor. Ég held að þessi yrði þrefalt stærri. Þetta yrði stærsti bardagi sögunnar, það eru engin takmörk fyrir því hversu stórt þetta gæti orðið.“

Báðir eru þeir Musk og Zuckerberg með bakgrunn í bardagaíþróttum. Zuckerberg hefur æft jiu-jitsu og Musk blandaðar bardagaíþróttir (MMA). Þar að auki segist musk hafa tekið þátt í „fullt af slagsmálum þegar hann ólst upp í Suður-Afríku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×