Handbolti

Færeyingar tryggðu sér sigur í milliriðlinum og gætu mætt Íslandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Færeyingar eru komnir í átta liða úrslit HM U21 árs landsliða í handbolta.
Færeyingar eru komnir í átta liða úrslit HM U21 árs landsliða í handbolta. IHF

Færeyingar tryggðu sér í dag sigur í milliriðli II á heimsmeistaramóti U21 árs landsliða karla í handbolta með nokkuð öruggum átta marka sigri gegn Portúgal, 27-19.

Fyrir leikinn var ljóst að bæði Færeyjar og Portúgal höfðu tryggt sér sæti í átta liða úrslitum mótsins og liðin kepptu því aðeins um efsta sæti riðilsins. Liðin sem fara áfram úr milliriðli II mæta liðum úr milliriðli IV þar sem Ísland berst í þessum rituðu orðum um sæti í átta liða úrslitum.

Færeyingar höfðu nokkuð góð tök á leiknum í dag og leiddu nánast frá fyrstu mínútu. Staðan í hálfleik var 15-10, Færeyjum í vil og portúgalska liðið virtist í raun aldrei líklegt til að ógna forskoti Færeyinga af nokkru viti.

Fór það því svo að Færeyjar unnu að lokum nokkuð öruggan átta marka sigur, 27-19, og tryggðu sér um leið efsta sæti riðilsins. Það er því ljóst að Færeyjar mæta liðinu sem endar í öðru sæti milliriðils IV, sem verða að öllum líkindum Serbar.

Bjarni í Selvindi og Bogi Hansen voru markahæstir í liði Færeyja með átta mörk hvor, en í liði Portúgal var André Sousa atkvæðamestur með fjögur.

Nú þegar þetta er ritað eru íslensku strákarnir með örugga forystu gegn Egyptum og eru því komnir langleiðina með að tryggja sér efsta sæti milliriðils IV og munu því mæta Portúgal í átta liða úrslitum ef ekkert breytist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×