Handbolti

„Við erum allir í skýjunum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Vignir var góður í marki Íslands í dag.
Brynjar Vignir var góður í marki Íslands í dag. IHF

Brynjar Vignir Sigurjónsson var ein af hetjum íslenska U-21 árs landsliðsins sem vann til bronsverðlauna á HM í dag.

Brynjar varði fjórtán skot í bronsleiknum gegn Serbum, eða 39 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Íslendingar unnu leikinn, 27-23, eftir að staðan í hálfleik var jöfn, 13-13.

„Þetta er geggjað og planið gekk upp. Við getum orðað það þannig. Við erum allir í skýjunum,“ sagði Brynjar við Vísi eftir leikinn í Max Schmeling höllinni í Berlín í dag.

Plan íslenska liðsins gekk ekkert svakalega vel framan af leik. Ísland skoraði aðeins eitt mark á fyrstu átta mínútunum og lenti mest fjórum mörkum undir. En íslensku strákarnir sýndu styrk, jöfnuðu fyrir hálfleik og voru alltaf fetinu framar í seinni hálfleik.

„Við náðum okkur ekki í gang fyrstu tuttugu mínúturnar og voru dálítið þungir enda ekkert skrítið. Við töpuðum í gær og vorum svekktir eftir það. En við náðum okkur upp og það var klárlega gott að fá markvörslu. Við fengum hana ekki í gær,“ sagði Brynjar. „Ég er helvíti sáttur og sáttur með strákana að klára þetta svona vel.“

Fyrir nokkrum mánuðum vissu fæstir nema allra hörðustu handboltaáhugamenn hver Brynjar hreinlega var. En margt hefur gerst í lífi þessa unga manns að undanförnu. Hann varð bikarmeistari með Aftureldingu og átti svo stóran þátt í því að Ísland jafnaði sinn besta árangur á HM í þessum aldursflokki.

„Þetta er geggjað, algjör veisla. Við getum orðað það þannig. Það er ekkert meira að segja; bara stórkostlegt. Maður þarf bara að halda áfram á þessari braut og gera góða hluti. Nú fær maður smá frí frá handbolta í nokkrar vikur, svo fer maður á fullt aftur og kemur með stæl inn í næsta tímabil með Aftureldingu,“ sagði Brynjar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×