Körfubolti

Silfur og brons á Norður­landa­mótinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
U-18 ára lið Íslands endaði í 3. sæti mótsins.
U-18 ára lið Íslands endaði í 3. sæti mótsins. Facebooksíða KKÍ

Bæði U18 og U20 ára lið Íslands í karlaflokki unnu til verðlauna á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð sem lauk í dag.

Fyrir leikinn í dag var U18-ára lið Íslands í efsta sæti riðilsins eftir fjóra leiki og hefði því getað tryggt sér Norðurlandameistaratitilinn með sigri á Svíum í lokaleik sínum.

Þeir máttu hins vegar þola tap í jöfnum og spennandi leik. Svíarnir voru sterkari á lokamínútunum og tryggðu sér 73-66 sigur. Tapið þýðir að Ísland féll niður í 3. sæti riðilsins, Svíar urðu í 2. sæti og Danir stóðu uppi sem sigurvegarar.

Kristján Fannar Ingólfsson átti mjög gott mót hjá íslenska liðinu og var valinn í úrvalslið mótsins.

U20-ára lið Íslands var taplaust áður en liðið mætti Dönum í dag. Ísland vann sigur á Eistum í undanúrslitum en mætti ofjörlum sínum í danska liðinu í dag. Danir unnu 92-67 sigur en að leik loknum voru þeir Almar Orri Atlason og Orri Gunnarsson báðir valdir í fimm manna úrvalslið mótsins sem þjálfarateymi allra þjóða velja.

Framundan hjá U20-ára liðinu er A-deild Evrópumótsins sem fram fer á Krít.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×