Það þarf að lengja skólaárið. Sumarfrí nemenda eru of löng. Það liggur í augum uppi. Athygli vekur að enginn kennari hefur lýst því sjónarmiði yfir í fjölmiðlum eftir að fjallað var um rannsókn sýndi að nemendur sem höfðu lokið fjögra ára framhaldsskólanámi stóðu sig betur við Háskóla Íslands en þeir sem lokið höfðu sama námi á þremur árum, eins og nú tíðkast.
Vandinn sem við er að etja er ekki að framhaldsskólanám var stytt úr fjórum árum í þrjú til að nemendur gætu hafið háskólanám fyrr, eins og sumir telja. Það var gert til að færa aldurinn sem fólk getur hafið háskólanám nær því sem tíðkast annars staðar í heiminum.
Nei, sumarfrí allra skólastiga – nema leikskóla – er einfaldlega of langt. Til að stytta megi framhaldsskólanám með sómasamlegum hætti þarf að lengja skólaár grunnskóla. Nám er löng keðja en ekki stakir sprettir sem eru óháðir öllu því sem áður hefur verið gert.
Öll þráum við sumarfrí og þau eru heilsu okkar mikilvæg. Aftur á móti geta of löng sumarfrí dregið úr námsárangri. Rannsóknir sýna nefnilega að nemendur sem taka löng sumarfrí hafa gleymt ansi miklu af því sem þau höfðu lært á síðasta skólaári.
Einn af styrkleikjum Íslands þegar kemur að námi er jú veðrið. Börnin sitja ekki oft í kennslustofum og horfa dreymin á góða veðrið. Það er að minnsta erfitt í rigningu og roki.
Það verður enn fremur að horfa til þess sumarfrí foreldra eru ekki jafn löng og barna þeirra. Þess vegna eru mörg börn „geymd“ á hinum ýmsu námskeiðum á sumrin. Það gefur augaleið að foreldrar sem hafa meira á milli handanna geta leyft börnum sínum að fara á fleiri uppbyggileg námskeið á meðan börn sem ekki eru jafn heppin þurfa að hafa ofan fyrir sér sjálf. Eflaust eru þau oft í tölvuleikjum eða að glápa á sjónvarpið. Það er með ólíkindum hversu illa nýtt sumrin hafa verið til náms áratugum saman.
Góð menntun er grunnforsenda þess að hér sé hægt að byggja upp öflugan þekkingariðnað. Það þarf að róa öllum árum til að efla hann enda er munu tækniframfarir knýja hagvöxt á 21. öldinni. Mikil hagsæld hérlendis á 20. öldinni má nefnilega þakka hagnýtingu náttúruauðlinda sem krafðist ekki mikillar menntunar. Þær eru takmörkunum háðar, við veiðum til dæmis ekki fleiri tonn úr sjónum. Sala á hugviti er hins vegar án takmarkanna. Þessi breyting gerir það að verkum að menntun er grjóthart efnahagsmál sem hægrivængur stjórnmála þarf að láta sig varða.
Ferðaþjónusta bjargaði hagkerfinu eftir bankahrun en því miður gerði uppgangur hennar það að verkum að hagkerfið treystir í enn meira mæli á náttúruauðlindir. Og minna á menntun.
Við verðum að skapa áhugaverð störf í hugverkaiðnaði til að halda í unga menntaða fólkið og auka velmegun. Annars er hætta á að hagsæld nágrannaþjóða verði áberandi meiri en okkar sem aftur myndi auka á landflótta menntafólks.
Ísland er fámenn þjóð og okkur skortir þekkingu á mörgum sviðum. Það að efla menntakerfið eykur líkurnar á að erlendir sérfræðingar vilji flytja hingað. Þeir vilja jú að börn sín hljóti góða menntun og fái þar með tækifæri til að geta fótað sig hvar sem er í heiminum.
Einn af styrkleikjum Íslands þegar kemur að námi er jú veðrið. Börnin sitja ekki oft í kennslustofum og horfa dreymin á góða veðrið. Það er að minnsta erfitt í rigningu og roki.
Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.