Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu fengu að vita það í gær að þær verða með á HM í Danmörku, Svíþjóð og Noregi í lok þessa árs.
Stórmótum þeirra gæti svo hæglega fjölgað í kjölfarið. Í október hefja þær leik í undankeppni EM 2024 og eiga mjög góða möguleika á að komast í lokakeppnina, en Ísland er í riðli með Svíþjóð, Færeyjum og Lúxemborg og komast tvö efstu liðin beint á EM. Lokakeppnin 2024 fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss en nú er alveg óljóst hvar mótið 2026 fer fram.
Rússar voru valdir til að halda EM 2026, eftir aukaþing EHF í nóvember 2021. Nokkrum mánuðum seinna hófst hins vegar innrás Rússa í Úkraínu og stendur stríðið enn yfir.
Vegna innrásarinnar ákvað alþjóða handknattleikssambandið, IHF, að banna öll lið og dómara frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, frá handboltamótum.
Í síðustu viku fundaði framkvæmdanefnd EHF í Vínarborg og í kjölfarið fylgdi tilkynnng þess efnis að nú yrði leitað að nýjum gestgjafa fyrir EM kvenna 2026.
„Vegna EM kvenna 2026 var veitt umboð til að hefja samtal við rússneska handknattleikssambandið sem gestgjafa vegna núverandi stöðu. Það samtal átti sér stað í byrjun vikunnar með þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að halda mótið í Rússlandi innan þess tímaramma sem gefinn er.
Þess vegna mun EHF leita að nýjum gestgjafa í samræmi við ákvörðun framkvæmdanefndar. Frekari upplýsingar um það ferli verða gefnar út síðar,“ segir í tilkynningu EHF.