Lagið má heyra í spilaranum hér að neðan:
Bréf til fyrri tíma
„Lagið var upprunalega samið sem upphafsstef fyrir litla smáskífu sem ég er að vinna í. Ég var bara ein í stúdíóinu að spila á gítar og syngja yfir. Svo hélt lagið einhvern veginn bara áfram og upphafsstefið varð að upphafsstefi fyrir lagið. Textinn er saminn sem eins konar bréf til fyrri tíma, hvernig hlutir minna mann á tíma sem maður átti einu sinni,“ segir Kolbrún og bætir við:
„Innblásturinn kom í rauninni bara út frá góðri stund í stúdíóinu en lagið er allt samið í einu útrásar sessioni.“
Stressandi en gott að prófa nýja hluti
Listamannsnafn KUSK má rekja til þess að Kolbrúnu fannst kusk vera bæði fallegt og vanmetið íslenskt orð. KUSK bar sigur úr býtum í Músíktilraunum í fyrra og segir hún að lífið hafi breyst mikið síðastliðið ár.
„Það var stór stökkpallur að fara úr Músíktilraunum yfir í tónlistarbransann á Íslandi, ótal dyr sem opnuðust, fullt af möguleikum og skemmtilegum tækifærum.
Undanfarið ár er ég búin að gera fullt hlutum sem Kolbrún fyrir ári hefði aldrei leyft sér að dreyma um að gera.
Ég væri algjörlega að ljúga ef ég segði að margir hlutir hefðu ekki verið mjög stressandi, enda er það nú alltaf þannig þegar maður fær að prófa nýja hluti. En á heildina litið hefur tónlistarlífið farið mjög vel með mig, ég hef fengið að kynnast svo mikið af góðu fólki og það sakar ekki að vera með besta vin sinn með sér í því.“
Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá KUSK, sem vinnur mikið með besta vini sínum Hrannari, sem notast við listamannsnafnið Óviti.
„Í sumar mun ég flakka svolítið á milli tónleika og spila á mismunandi stöðum. Einnig erum við Hrannar loksins búin að setja saman live hljómsveit. Við spiluðum fyrstu tónleikana með lifandi undirleik um daginn og það var lengi búið að standa til. Svo er aldrei að vita nema lítil smáskífa sé á leiðinni á næstunni, segir Kolbrún brosandi að lokum.“
Emmsjé Gauti á toppnum
Emmsjé Gauti situr á toppi Íslenska listans á FM í þessari viku með Þjóðhátíðarlagið Þúsund Hjörtu sem hefur slegið í gegn að undanförnu.
Diljá fylgir á eftir í öðru sæti með lagið Crazy og strákasveitin Iceguys stekkur upp í þriðja sætið með lagið Rúlletta. Hljómsveitina skipa þeir Jón Jónsson, Friðrik Dór, Aron Can, Herra Hnetusmjör og Rúrik Gíslason.
Íslenski listinn er fluttur alla laugardaga á milli klukkan 14:00 og 16:00 á FM957.
Lög Íslenska listans:
Íslenski listinn á Spotify: