Forsvarsmenn sænska ríkissjónvarpsins greindu frá þessu fyrir stundu. Alls bárust umsóknir frá yfirvöldum í fjórum sænskum borgum – höfuðborginni Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö og Örnskjöldsvik. Keppnin mun fara fram dagana 7., 9., og 11. maí 2024.
Ljóst var að Svíar myndu halda keppnina í maí á næsta ári eftir að Loreen og lag hennar Tattoo vann sigur í keppninni sem fram fór í Liverpool í Bretlandi fyrir um mánuði. Með sigrinum jöfnuðu Svíar met Íra með því að hafa unnið Eurovision sjö sinnum.
Eurovision hefur áður verið haldin í Malmö árin 1992 og 2013, eftir sigra Carolu (Fångad av en stormvind) og Loreen (Euphoria). Lagt er til að keppnin verði haldin í Malmö Arena þar sem keppnin var einnig haldin 2013.
Sigrar Svía í Eurovision:
- 1974: ABBA – Waterloo.
- 1984: Herrey's – Diggi-loo Diggy-ley.
- 1991: Carola – Fångad Av En Stormvind.
- 1999: Charlotte Nilsson – Take Me To Your Heaven.
- 2012: Loreen – Euphoria.
- 2015: Måns Zelmerlöw – Heroes.
- 2023: Loreen – Tattoo