Körfubolti

Frá­bær byrjun hjá U20-ára lands­liðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson sýndi frábær tilþrif undir lok leiksins þegar hann fór í gegnum vörn Slóveníu og tróð með tilþrifum.
Tómas Valur Þrastarson sýndi frábær tilþrif undir lok leiksins þegar hann fór í gegnum vörn Slóveníu og tróð með tilþrifum. Facebooksíða KKÍ

Íslenska U20-ára landsliðið í körfubolta vann góðan sigur á Slóveníu í fyrsta leik liðsins í A-deild Evrópumótsins. Lokatölur 70-68 eftir æsispennandi leik.

Evrópumótið fer fram á Krít og er Ísland í riðli með Slóveníu, Frakklandi og Þýskalandi.

Ísland byrjar mótið heldur betur vel því liðið vann í dag tveggja stiga sigur á Slóveníu í sínum fyrsta leik. Leikurinn var jafn og spennandi eins og lokatölurnar gefa til kynna en Ísland var einu stigi yfir í hálfleik, staðan þá 36-35.

Í síðari hálfleik var leikurinn áfram jafn. Slóvenía var þremur stigum yfir að loknum þriðja leikhluta og liðin skiptust á forystunni í lokafjórðungnum. Í stöðunni 61-59 fyrir Slóvena náði Ísland 7-0 kafla og kom sér í fína stöðu.

Slóvenar gerðu hvað þeir gátu til að jafna og minnkuðu muninn í tvö stig þegar skammt var eftir. Þegar 14 sekúndur voru eftir var boltanum stolið af Almari Atlasyni og Slóvenía fékk tækifæri til að jafna, en Almar náði að stela boltanum til baka nokkrum sekúndum síðar og Ísland tryggði sér sigur. Lokatölur 70-68.

Almar var stigahæstur íslensku leikmannanna með 27 stig auk þess að taka 9 fráköst en Orri Gunnarsson skoraði 21 stig.

Ísland mætir næst Þýskalandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×