Veður

Norð­vestan­átt á landinu og gasmengun gæti borist til Grinda­víkur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það verður gosmengun á gönguleiðum að eldgosinu við Litla-Hrút í dag og því ólíklegt að gosstöðvarnar verði opnaðar á ný.
Það verður gosmengun á gönguleiðum að eldgosinu við Litla-Hrút í dag og því ólíklegt að gosstöðvarnar verði opnaðar á ný. Vísir/Vilhelm

Það verður áfram norðan- og norðvestanátt á landinu í dag. Á norðanverðu landinu verður væta og svalt í veðri, en annars skýjað með köflum, stöku skúrir og hlýtt. Á Austfjörðum hvessir seinnipartinn. Gasmengun við gosstöðvarnar berst til suðurs yfir gönguleiðir, Suðurstrandarveg og mögulega til Grindavíkur.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar um veðurhorfur á landinu.

Þar segir að norðlæg átt verði víða á landinu í dag, almennt fimm til tíu metrar á sekúndu en tíu til fimmtán metrar á sekúndu austast. Þá verður bjart með köflum en það verður áfram dálítil væta um norðaustanvert landið.

Hægari vindar á morgun og birtir víða til næstu daga. Þó verður áfram skýjað og sums staðar súld úti við norður- og austurströndina. Á morgun hlýnar í veðri, hiti víða fimm til tíu stig en allt að tuttugu stig sunnanlands.

Gasmengun á gönguleiðum og í Grindavík

Vegna norðan og norðaustan átta til þrettán metra á sekúndu berst gasmengun til suðurs frá eldgosinu við Litla-Hrút. 

Samkvæmt spá Veðurstofunnar má búast við að hennar verði vart á Suðurstandarvegi, á gönguleiðum að gosstöðvunum og jafnvel í Grindavík.

Gosstöðvarnar hafa verið lokaðar síðan á fimmtudagsmorgun vegna reykmengunar undan gróðureldum og kvikugasi. Eftir fund viðbragðsaðila nú klukkan níu kemur í ljós hvort gosstöðvarnar verða opnaðar á ný. Miðað við veðrið virðist það ólíklegt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðvestlæg átt, 5-10 en 10-15 m/s með austurströndinni. Skýjað um norðanvert landið og dálítil væta austanlands. Hiti 6 til 11 stig, en bjartviðri sunnantil með hita að 20 stigum yfir daginn.

Á miðvikudag og fimmtudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum en víða bjartviðri syðra. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast sunnanlands.

Á föstudag og laugardag: Hæg vestlæg eða breytileg átt, bjart með köflum og stöku skúrir. Hlýtt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×