Þannig hófst grein sem birtist í DV þann 12. mars 1985 en nokkrum mánuðum síðar var tívolíið í Hveragerði opnað. Það var um árabil sívinsæll áfangastaður barnafjölskyldna af höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandsundirlendinu.
„Við hyggjumst reisa þarna skemmtigarð þar sem ungir og aldnir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tækin sem notuð voru í tívoíinu á Melavellinum í fyrra, eru í okkar eigu og byrjum við á að koma þeim upp,“ sagði Sigurður Kárason í samtali við DV á sínum tíma, en hann var einn eigenda Kauplands sf. sem stóð að opnun tívolísins.
Tívolí sem starfrækt hafði verið í Vatnsmýrinni í Reykjavík var lokað árið 1960. Íslendingar höfðu því ekki átt sitt eigið tívolí í rúman aldarfjórðung.
Árið 1987 var byggt yfir tívolíið, stór bygging með límtrésbitum og plastklæðningu, alls sex þúsund fermetrar að stærð. Í tívolíinu voru ýmis tæki, t.d. gokart-bílar, kolkrabbi, þeytivinda (Round-up), klessubílar, slöngubátar, skotbakkar og fleira.
Það sama ár tók Ólafur H. Ragnarsson við rekstrinum og sá um hann um reksturinn alveg þar til tívolíið lokaði árið 1994.
Eftirfarandi ljósmyndir eru úr skjalasafni Brunamálastofnunar ríkisins (ÞÍ. Brunamálastofnun ríkisins. 2018/1) og munu eflaust vekja upp ánægjulegar minningar hjá mörgum.





