Skráðar gistinætur voru 1.170.600 talsins í júní samanborið við 1.012.300 árið í fyrra. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 77% gistinótta í júní sem er 16% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 14% frá fyrra ár.
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 703.000 og um 468.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða, þar á meðal í íbúðagistingu, orlofshúsum og á tjaldsvæðum.
Þetta kemur fram í samantekt á vef Hagstofu Íslands en áætlaður fjöldi gistinótta erlendra ferðamanna í heimagistingu utan hefðbundinnar gistinóttaskráningar í júní var um 200.000.
Gistinætur á hótelum í júní voru 510.700 sem er 3% aukning frá fyrra ári. Hótelgisting jókst í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu samanborið við júní 2022. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 419.200, eða 82% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 91.500 sem jafngildir 18%. Gistinætur erlendra ferðamanna jukust um 4% á meðan þær íslensku voru á pari við fyrra ár, að sögn Hagstofunnar.
Framboð hótelherbergja var svipuð í júní og á sama tíma í fyrra. Herbergjanýting á landsvísu jókst um 1,3 prósentustig og varð mesta aukningin á Suðurnesjum og Suðurlandi.