Fótbolti

Højlund orðinn leikmaður Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Højlund labbar inn á Old Trafford í morgun.
Højlund labbar inn á Old Trafford í morgun. vísir/getty

Manchester United kynnti nú í hádeginu sinn nýjasta leikmann. Danski framherjinn Rasmus Højlund er búinn að skrifa undir samning við félagið.

Þessi félagaskipti hafa legið lengi í loftinu og Erik Ten Hag, stjóri Man. Utd, er nú búinn að fá framherjann sem hann vildi fá.

Højlund er aðeins tvítugur að aldri og kemur til félagsins frá Atalanta á Ítalíu. Hann skoraði tíu mörk fyrir félagið í Serie A á síðustu leiktíð. Hann hefur skorað sex mörk í sex landsleikjum fyrir danska landsliðið.

„Það er ekkert leyndarmál að ég hef verið stuðningsmaður þessa frábæra félags síðan ég var lítill strákur. Mig hefur alltaf dreymt um að labba út á Old Trafford sem leikmaður Man. Utd,“ sagði Daninn sem gerði það nú áðan en United er að spila æfingaleik við Lens í dag.

Framherjinn er að glíma við smávægileg meiðsli og mun byrja að æfa með liðinu eftir svona viku.

Daninn skrifaði undir fimm ára samning við United með möguleika á eins árs framlengingu. United greiðir Atalanta 72 milljónir punda fyrir leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×