Lífið

Hægt að mynda „hvaða stjórn sem er“ með „bögg­les“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, skemmtir sér konunglega við að rýna í niðurstöður könnunar Gallup á framburði nafnsins Bugles.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, skemmtir sér konunglega við að rýna í niðurstöður könnunar Gallup á framburði nafnsins Bugles. Vísir/Vilhelm

Mikill meiri­hluti lands­manna ber nafn snakksins Bugles fram sem „Bögg­les.“ Minni­hluti notar enskan fram­burð og kallar það „Bjúgels“ á meðan enn minni hluti lands­manna kallar það „Bugles.“ Þetta eru niðurstöður nýlegrar könnunar. Stjórn­mála­fræðingur segir stuðningsmenn allra flokka á Íslandi sammála um framburðinn.

„Ég hafði að vísu aldrei heyrt um þetta á­gæta vöru­merki, hvað þá að ég hafi haft ein­hverja skoðun á því hvort það ætti að segja bögg­les eða bjúgels, hins vegar ræddi ég þetta við dóttur mína og hún vissi allt um þetta,“ segir Ólafur Þ. Harðar­son, stjórn­mála­fræðingur, sem mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi niður­stöður könnunarinnar sem nýlega var fram­kvæmd var af Gallup.

Þar eru lands­menn spurðir að því hvernig þeir bera fram heitið á Bugles snakki en könnunin er gerð fyrir aug­lýsinga­stofuna ENNEMM. 907 manns svöruðu könnuninni.

Í ljós kemur að 80,2 prósent lands­manna segir „Bögg­les,“ á meðan 14,8 prósent segir „Bjúgels.“ 4,0 prósent lands­manna ber nafn snakksins fram sem „Bugles“ og 1,1 prósent segir nafnið á annan máta.

Af­gerandi niður­staða

„Ég hef heldur ekki neitt sér­stakt vit á fram­burði, þannig það má spyrja sig hvern djöfulinn ég sé að gera hér og svarið er nú eigin­lega það að ég hef verið að túlka skoðana­kannanir í fjöru­tíu ár, þannig ég er ekki alveg ó­kunnugur því hvort að munurinn sé mikill eða lítill og svo þegar ég var beðinn um þetta þá fannst mér þetta skemmti­legt við­fangs­efni.“

Ólafur segir allt hafa verið gert eftir bókinni við gerð könnunarinnar. Um sé að ræða net­könnun sem til­efni sé til til þess að taka fullt mark á. Hún sé af­gerandi og valdi engil­sax­neskum að­dá­endum veru­legum von­brigðum. „Bögg­les“ sé mest sagt af öllum hópum landsins.

Bugles snakkið þekkist helst á lögun snakksins sem ófáir krakkar hafa sett á fingur sér og þar með verið með „nornafingur.“Wikipedia

Yngstu hallari undir enska fram­burðinn

„Það sem er mest sláandi er að þessi mikli yfir­burðar­sigur „bögg­les“ endur­speglast í öllum þessum hópum. Á sumum þessara breytna er samt svoldill munur, ef við skoðum fyrst kyn þá er eigin­lega enginn munur. Konur eru ekkert lík­legri en karlar til að vera með annan hvern fram­burðinn.“

Munurinn sé jafn­framt lítill þegar kemur að tekjum og menntun, þó að þeir sem lokið hafa grunn­skóla­prófi eru lík­legri til þess að segja „bögg­les“ heldur en þeir sem lokið hafi fram­halds­skóla­prófi eða há­skóla­prófi.

„Það eru fyrst og fremst þeir yngstu sem skera sig frá þegar litið er til aldurs, það kemur kannski ekki á ó­vart en þeir eru miklu hallari undir það að nota enska fram­burðinn og um fjórðungur sem segir „bjúgels“ miðað við að það er 10 til 15 prósent í flestum öðrum hópum.“

„Bögg­les“ stærsta sameiningartáknið

Ólafur segir þá sjást greini­legan lands­hluta­mun í könnuninni. 72 prósent Reyk­víkinga segi „böggels“ en 25 prósent „bjúgels.“

„Á meðan að þeir sem segja „bjúgels“ á lands­byggðinni eru bara sjö prósent. Þannig að lands­byggðar­mennirnir eru ís­lensku skotnari ef að svo má segja.“

Þegar við­kemur stjórn­mála­skoðunum fólks segir Ólafur ekki eins greini­legan mun á því hvernig fólk ber fram nafn snakksins.

„Stuðnings­menn allra flokka eru yfir­gnæfandi með ís­lenska fram­burðinum. Þannig að þegar að kemur að því, sem verður nú á­reiðan­lega fljót­lega, að þegar það verður myndað ríkis­stjórn á grund­velli þessa mikil­væga klofnings­þáttar þá er í rauninni hægt að mynda hvaða stjórn sem er. Þeir sem helst yrðu í stjórnar­and­stæðu væru, sör­præs sör­præs, Píratar en samt eru næstum því tveir þriðju Pírata sem eru með ís­lenska fram­burðinum. Hins vegar skera þeir sig úr því þriðjungur Píratanna eru með enska fram­burðinn.“

Könnunina má skoða hér fyrir neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.