Dómarar leiksins veittu þættinum góðfúslegt leyfi til þess að sýna áhorfendum frá þeirra störfum og því sem fór þeirra á milli á ansi áhugaverðum tímapunkti í leiknum þegar að sauð upp úr.
Leikar stóðu 2-1 í leiknum fyrir Fram þegar rúmar tíu mínútur eftir lifðu leiks og Halldór Jón Sigurður Þórðarson, leikmaður ÍBV fór harkalega í bakið á Tiago, leikmanni Fram.
Þá varð allt snælduvitlaust, bæði innan vallar sem og á hliðarlínunni, og var ansi áhugavert að sjá hvernig Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins og aðstoðarmenn hans leystu úr málunum.
„Það var áhugavert að sjá þetta,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar eftir að myndskeiðið hafði verið spilað. „Ég þekki ótrúlega marga sem telja sig vera stórbrotna dómara heima í stofu og hvar sem þeir eru á vellinum.
Þarna sjáum við að það þarf ekki bara að fylgjast með 22 einstaklingum inn á vellinum, sem oft hegða sér eins og krakkar. Heldur eru einnig tuttugu einstaklingar þarna fyrir utan, á hliðarlínunni, með alls konar rugl. Það þarf svo sannarlega fjögur sett af augum, að minnsta kosti, til þess að fylgjast með þessu öllu.“
Atli Viðar Björnsson, einn af sérfræðingum Stúkunnar, tók undir það og þótti mikið til Vilhjálms Alvars, dómara leiksins, koma.
„Hvernig hann var að reyna róa leikmenn, tala við þá í öðru hvoru orði og hin orðin notar hann í að tala við kollega sína og þeir tala sig niður á ákvörðun, hvernig þeir ætli að leysa þetta. Það var mjög áhugavert að sjá þetta.“
Svona innslög eru ávallt áhugaverð enda ekki á hverjum degi sem áhugafólki um íþróttina gefst tækifæri til þess að skyggnast inn í störf dómaranna.
Bragi Bergmann knattspyrnudómari var með hljóðnema á sér í leik ÍA og Vals þann 25. júlí árið 1992 á Akranesvelli. Það er óhætt að segja að það hafi verið heitt í kolunum í þeim leik líkt og sjá má í innslaginu hér fyrir neðan.