Um miðbik fimmta áratugarins var takmörkuð afþreying í boði fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Það dró því heldur betur til tíðinda þegar hópur athafnamanna stofnaði hlutafélag utan um rekstur á tívolígarði. Um var að ræða þá Þorleif H. Eyjólfsson húsasmíðameistara, Thor R. Thors verslunarmann, Sigurgeir Sigurðsson lögmann, Stefán Bjarnason verkfræðing og Kjartan Ásmundsson gullsmið.
Fengu þeir félagar tveggja hektara lóð í Vatnsmýrinni, sem á þeim tíma var botnlaus mýri. Hófust þeir handa við að þurrka landið, leggja göngustíga og fegra svæðið. Skemmtitæki voru keypt frá Danmörku og Englandi og um mitt sumar var Tívolíið í Reykjavík opnað.
Parísarhjól og hringekja
Tívolíið var fyrstu árin opið frá lok maí og fram í september, eftir því sem veður leyfði, og var opið á kvöldin og um helgar. Upphaflegir stofnendur skemmtigarðsins sáu um rekstur hans fyrstu sjö árin, en þá festi Íþróttafélag Reykjavíkur kaup á svæðinu.

Á tívolísvæðinu var meðal annars bílabraut, hringekja, skotbakki og Parísarhjól. Þá má ekki gleyma skálanum á svæðinu , sem fékk nafnið Vetrargarðurinn og var notaður undir skemmtanahald og veitingarekstur. Vetrargarðurinn var um skeið einn annálaðasti dans- og skemmtistaður borgarinnar og þótt staðurinn hefði aldrei vínveitingaleyfi flaut þar áfengi óspart.
Í Tívolí var einnig boðið upp á margvíslegt sýningarhald og margir muna eftir flugvélunum sem flugu yfir svæðið á tyllidögum og vörpuðu sælgæti yfir barnahópinn.
Árið 1954 fékk Einar Jónsson, þáverandi forstjóri Tívolí þá hugmynd að halda keppnina um fegurðardrottningu Íslands í garðinum. Reyndist það geysivinsælt og á næstu árum stigu ófáar fegurðardísir á svið í Vatnsmýrinni.

Sagan endaði árið 1965
Í byrjun sjöunda áratugarins fór reksturinn að þyngjast og aðsóknin að dala. Margir vildu tengja það við rysjótt veðurfarið á Íslandi. Á þessum tíma voru skipulagðar útihátíðir einnig farnar að ryðja sér til rúms hér á landi og veitti það Tívolí beina samkeppni á þeim helgum sem höfðu verið hvað aðsóknarmestar.
Árið 1962 var ákveðið að að leigja út rekstur bæði Tívolísins og Vetrargarðsins og um miðjan sjöunda áratuginn var þessi vinsæli skemmtigarður úr sögunni.
Tívolíið í Vatnsmýrinni hefur engu að síður skapað sér vissan sess í dægurmenningu Íslendinga í gegnum árin, ekki síst í verkum listamanna sem voru á barnsaldri á „gullárum“ Tívolísins.
Sem dæmi má nefna plötu Stuðmanna Tívolí sem kom út árið 1976 en þar má finna margar skírskotanir í skemmtigarðinn fræga.
Tónlistarmaðurinn Megas hefur einnig gert Tívolí góð skil í mörgum af sínum lögum. Tívolíið kemur einnig fyrir í skáldsögu Péturs Gunnarssonar Punktur, punktur, komma, strik og í skáldsögu Sjón Með titrandi tár: Glæpasaga. Þá má ekki gleyma Djöflaeyjunni, kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar en þar kemur skemmtistaðurinn Vetrargarðurinn töluvert við sögu.
Meðfylgjandi myndir eru í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.












Um Ljósmyndasafnið
Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíminn mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6,5 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum.
Elstu myndirnar eru frá því um 1860 og þær yngstu frá 2020. Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur upp á annan tug sýninga ár hvert. Markmiðið er að kynna íslenska ljósmyndara og koma á framfæri, sýna verk úr safneign sem og að sýna verk erlendra ljósmyndara.