Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í norðausturfjórðungi landsins ætti að haldast bjart veður og þar verði jafnframt hlýjast, eða um sextán stig þegar best lætur.
„Á morgun fer aftur að blása á vestanverðu landinu, það má búast við sunnan strekkingi þar með skýjuðu veðri og að það fari að rigna sídegis. Á austurhelmingi landsins verður hægari suðlæg átt, þurrt og bjart að veður og hiti allt að 19 stig, t.d. á Héraði eða í Þingeyjarsýslum.
Heilt yfir virðist vikan sem nú er að hefjast ætla að einkennast af suðlægum áttum með vætu, en lengst af þurrt norðaustantil á landinu og nokkuð hlýtt í veðri þar,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Sunnan 8-15 m/s á vestanverðu landinu, skýjað og rigning með köflum þar síðdegis. Hiti 9 til 13 stig. Suðvestan 3-10 á austurhelmingi landsins með þurru og björtu veðri og hita að 18 stigum.
Á miðvikudag: Suðlæg átt 3-10 og víða vætusamt, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi fram eftir degi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á fimmtudag: Breytileg átt 3-8 og rigning með köflum víða um land. Hiti 10 til 16 stig.
Á föstudag og laugardag: Sunnan- og suðvestanátt og rigning eða skúrir, en yfirleitt þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðaustantil.
Á sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt með vætu í flestum landshlutum. Kólnar í veðri.