Handbolti

Óðinn Þór marka­hæstur í grát­legu jafn­tefli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óðinn Þór var magnaður í kvöld.
Óðinn Þór var magnaður í kvöld. Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson lék á als oddi þegar lið hans Kadetten Schaffhausen gerði jafntefli í svissnesku úrvalsdeildinni í handknattleik nú í kvöld.

Óðinn Þór átti frábært síðasta tímabil með Kadetten Schaffhausen en Aðalsteinn Eyjólfsson var þá þjálfari liðsins. Aðalsteinn tók hins vegar við Minden í Þýskalandi í sumar eftir að hafa stýrt liðinu til svissneska meistaratitilsins.

Í kvöld mætti Kadetten Schaffhausen liði Amicitica Zurich í fyrstu umferð deildakeppninnar. Kadetten Schaffhausen var með yfirhöndina lengst af. Liðið komst í 5-1 í upphafi leiks en staðan í hálfleik var 10-10.

Í síðari hálfleik náði liðið síðan mest fimm marka forystu og leiddi 23-18 þegar tíu mínútur voru eftir. Þá fór hins vegar allt í skrúfuna. Liðsmenn Zurich minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu metin í 25-25 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir.

Óðinn Þór kom heimamönnum yfir á ný úr vítakasti en gestirnir jöfnuðu aftur þegar tæp mínúta var eftir og heimamönnum tókst ekki að nýta tímann sem var eftir til að tryggja sér sigurinn.

Svekkjandi 26-26 jafntefli því staðreynd hjá Kadetten Schaffhausen en Óðinn Þór var markahæsti leikmaður liðsins. Óðinn Þór skoraði átta mörk úr níu skotum og heldur því áfram á sömu braut eftir frábært tímabil á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×