Handbolti

ÍBV sótti sigur norður og ÍR vann ný­liða­slaginn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir fagnar marki
Birna Berg Haraldsdóttir fagnar marki Vísir/Hulda Margrét

Tveimur leikjum er lokið í Olís-deild kvenna í handknattleik. ÍBV gerði góða ferð norður á Akureyri og vann þægilegan sigur á KA/Þór. Þá unnu nýliðar ÍR sigur á Aftureldingu á heimavelli sínum.

ÍBV varð bæði deildar- og bikarmeistari á síðasta tímabili en tapaði í úrslitaeinvígi Olís-deildarinnar gegn Val. KA/Þór hefur farið í gegnum töluverðar breytingar í sumar. Arna Valgerður Erlingsdóttir tók við þjálfun liðsins og þá verður Rut Jónsdóttir ekkert með liðinu í vetur þar sem hún á von á barni.

Sigur ÍBV í dag var öruggur. KA/Þór hélt í við Eyjakonur í upphafi en síðan skildu leiðir og ÍBV leiddi 16-9 í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt Eyjaliðið áfram að auka muninn. Hann varð mestur ellefu mörk og ÍBV vann að lokum 29-20 sigur.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 8 mörk fyrir ÍBV í dag og Sunna Jónsdóttir 5. Þá varði Marta Wawrzykowska frábærlega í markinu. Hjá KA/Þór skoraði Nathalia Soares Baliana 5 mörk og Lykdía Gunnþórsdóttir 4. 

Það var nýliðaslagur í Breiðholtinu þar sem ÍR tók á móti Aftureldingu. ÍR náði góðri forystu snemma leiks og leiddi 17-13 í leikhléi. Afturelding náði aldrei að brúa bilið og mest munaði sex mörkum í síðari hálfleiknum.

Lokatölur í Breiðholtinu 31-26 og ÍR fagnar því góðum sigri í fyrstu umferð Olís-deildarinnar.

Katrín Tinna Demian átti magnaðan leik fyrir ÍR í dag og skoraði 11 mörk. Hanna Karen Ólafsdóttir kom næst með 7. Ísabella Schöbel Björnsdóttir varði 14 skot í markinu.

Hjá Aftureldingu skoruðu Hildur Lilja Jónsdóttir og Sylvía Björt Blöndal 7 mörk hvor og Saga Sif Gísladóttir varði 9 skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×