Lífið

Mugison sýndi öðrum manni óvart typpamynd

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mugison á tónleikunum Bylgjan órafmögnuð.
Mugison á tónleikunum Bylgjan órafmögnuð. Vísir/Rakel Rún

Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, segist hafa samið lagið Gúanó Kallinn á nýjustu plötu sinni É dúdda mía í mjög skrýtnu ástandi, það er að segja stuttu eftir að hann sýndi öðrum manni óvart typpamynd af sér.

Þetta kom fram í viðtali sem útvarpsmaðurinn Ómar Úlfur Eyþórsson tók við Mugison á X-inu í dag.

Mugison sagðist hafa verið orðinn of þungur, og að einn daginn hafi hann farið í sturtu. Að henni lokinni hafi hann litið í spegil og tekið mynd af sjálfum sér kviknöktum.

„Ég tek mynd á símann. Ég ætlaði að eiga svona fyrir- og eftir mynd. Það væri gaman í framtíðinni að geta rifjað upp hvað maður hefði verið orðinn mikill chubby bastard,“ útskýrði Mugison.

Stuttu seinna hafi hann verið í partíi að útskýra fyrir öðrum manni framkvæmdir sem hann væri að standa í. Hann hafði verið að gera upp orgel.

„Ég sé það á honum að hann skilur mig ekki,“ segir Mugison sem bendir á að það sem hann hafi verið að segja um orgelið hafi líklega verið ansi flókið. Hann hafi þá ætlað að útskýra það betur fyrir honum með myndum sem hann átti í símanum.

„Ég tek upp símann. Og þá var ég náttúrulega búinn að gleyma því hvað var síðast þarna á helvítis tækinu. Hann sér mig þarna, ég náttúrlega var ekki í neinum nærbuxum,“ segir Mugison.

„Ég hleyp inn á klósett. Ég veit ekki afhverju, en það voru mín fyrstu viðbrögð. Og ég eyði myndinni,“ bætir hann við. „Ég skammaðast mín mjög mikið.“

Síðan segist Mugison hafa litið á þennan sama mann og hann hafi séð í augum hans að það hafi ekki farið fram hjá honum hvað hann hafi séð á myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×