Leikurinn hefur fengið viðurnefnið 50 milljóna króna leikurinn en auk sætis í Bestu deildinni er talið að sigurliðið í leiknum, í þessu tilfelli Vestri, fái um 50 milljónir króna í sinn hlut.
Afturelding kom inn í úrslitaleik laugardagsins sem líklegra liðið til afreka. Mosfellingar enduðu í 2. sæti Lengjudeildarinnar á meðan að Vestri endaði í því fjórða.
Hvorugu liðinu tókst að finna netmöskvana í venjulegum leiktíma á Laugardalsvelli á laugardaginn og því þurfti að grípa til framlengingar.
Þar reyndist varamaðurinn Iker Hernandez Esquerro hetja Vestramanna. Hann kom boltanum í netið á 103. mínútu með afbragðs skoti eftir glæsilega stoðsendingu frá Sergine Modou Fall.
Reyndist þetta markið sem tryggði Vestra Bestu deildar sætið.