Hér má sjá viðtalið við Tönju í heild sinni:
Tanja segir að það hafi ágerst á undanförnum árum að hún vilji halda hlutum fyrir sjálfa sig.
„Segjum að þú segir fjölskyldunni þinni frá einhverju. Kannski segir svo fjölskyldumeðlimur einni vinkonu og allt í einu er þetta farið út um allt.“
Hún segist þó upplifa minni pressu í dag að verða að ræða allt um sitt líf.
„Fólk ætlast kannski til þess að ég tali um ákveðna hluti. Ákveðnir hlutir hafa gerst og fólk er að bíða eftir því að ég segi frá því en ég held að núna finnst mér fólk virða bæði áhrifavalda og almennt fólk þegar það vill ekki tala um eitthvað. Bara svona hún ætlar ekki að deila þessu og það er líka bara allt í lagi. Mér finnst ég sjá það meira í dag en áður fyrr.“
Hún segir þetta stundum hafa farið yfir mörk og sem dæmi hafi hún aldrei þorað að kaupa óléttupróf sjálf og bað því alltaf fjölskyldumeðlim eða vin að gera það.
„Ég vil ekki að einhver sjái mig vera að kaupa óléttupróf og það spyrjist eitthvað út. Segjum sem svo að ég yrði ólétt, þá vil ég að það komi frá mér þegar ég segi frá því af því að það er styrkur í því, frekar en að fólk frétti það bara einhvers staðar annars staðar.“

„Þá lokaðist ég alveg“
Tanja hefur lent í ýmislegu í gegnum tíðina og nefnir sem dæmi leiðinlega kjaftasögu sem fór á flug fyrir tæpum áratugi síðan.
„Þetta var þegar ég var að fara til London í Miss World sem Ungfrú Ísland. Um þremur vikum fyrir lendi ég í því óhappi að brjóta á mér kjálkann. Ég fer upp á Slysó og allt þetta og ég held að það hafi verið um viku síðar að þá heyrir kona frá ákveðnum fréttamiðli í vinkonu minni og spyr í hvers konar lýtaaðgerð ég var í.
Þá lokaðist ég alveg. Þá vildi ég ekki segja neinum frá þessu og ég vildi passa að ég kæmist út til London. Það er kannski það óþægilega, sumar sögur eru teknar algjörlega úr samhengi og ekkert af því sem er verið að segja gerðist.“
Hún segir erfitt að reyna að deila sannleikanum með fólki sem hefur ekki áhuga á honum.
„Fólk býr stundum til eigin raunveruleika í hausnum og sama hvað ég myndi segja myndi það aldrei breyta skoðunum hjá fólki. Þannig að ég í rauninni sagði engum frá því að ég hefði kjálkabrotnað.
Það er stressandi þegar sagan er tekin úr höndunum á manni og maður fær ekki að segja frá sinni eigin sögu sjálfur. Það er svona það eina sem mér líkar ekki. Þannig að ef ég er að gera eitthvað þá finnst mér gott að þegja og segja engum frá því. Það er auðvitað smá súrt því stundum langar mann alveg að ræða hlutina við hina og þessa en svo langar mann ekki að það sé verið að spjalla um mann.“