Lífið

Lasse Berghagen er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Lasse Berghagen stýrði þættinum Allsång på Skansen í sænska ríkissjónvarpinu um tíu ára skeið.
Lasse Berghagen stýrði þættinum Allsång på Skansen í sænska ríkissjónvarpinu um tíu ára skeið. Wikipedia Commons

Lasse Berghagen, einn ástsælasti söngvari og sjónvarpsþáttastjórnandi Svíþjóðar, er látinn, 78 ára að aldri.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Berghagen segir að hann hafi andast í morgun eftir langvinn veikindi. Hann gekkst undir hjartaaðgerð í september og náði aldrei almennilega heilsu á ný.

Berghagen hefur um margra áratuga skeið verið einn ástsælasti söngvari Svíþjóðar. Hann tók við sem þáttastjórnandi hins gríðarvinsæla þáttar, Allsång på Skansen, árið 1994 og stýrði þáttunum allt til ársins 2003.

Þættirnir hafa verið á dagskrá sænska ríkissjónvarpsins yfir sumarmánuðina allt frá árinu 1979 en þar safnast fólk saman á Skansen í Stokkhólmi og syngja saman. Í hverjum þætti mæta nokkrir listamenn og syngja eigin lög og fara svo fyrir hópsöng. Þættirnir voru upphaflega á föstudagskvöldum en frá árinu 1986 hafa þeir verið á dagskrá á þriðjudagskvöldum.

Auk þess að vera vinsæll söngvari og þáttastjórnandi gaf hann út fjölda barnabóka. Eitt vinsælasta lag Berghagen var Teddybjörnen Fredrikson frá árinu 1969.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×