Stærri brautin hlaut nafnið Úlfur og sú minni Ylfa eftir hugmyndasamkeppni og atkvæðagreiðslu meðal íbúa í hverfinu. Dalslaug var opnuð fyrir um tveimur árum og upphaflega var ekki gert ráð fyrir rennibraut en eftir skýrt ákall íbúa var ráðist í verkið.
Afmælisbörnin Aron Frosti Guðmundsson, Harpa Rakel Hólm og Jóel Orri Einarsson nemendur í Dalskóla ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vígðu nýju vatnsrennibrautirnar í Dalslaug með því að renna sér fyrstu ferðina í dag. Dagur og sonur hans gáfu rennibrautinni toppeinkunn eftir salíbununa í dag en eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan skemmtu þeir og aðrir sundlaugargestir sér konunglega.
Lokuð rör með ljósrifum til að auka upplifun
Rennibrautirnar eru með upphituðu stigahúsi og er Úlfur tíu metrar á hæð og 65 metra löng og Ylfa er fimm metrar á hæð og 35 metra löng. Í frétt á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að brautirnar séu lokuð rör, svartar að innan með ljósrifum til að auka upplifun þegar fólk rennir sér niður.

Að neðan má sjá innslag úr kvöldfréttum Stöðvar 2 frá opnun sundlaugarinnar í desember 2021.