Körfubolti

„Hún er það góð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark er frábær leikmaður og algjör lykilleikmaður hjá Iowa Hawkeyes.
Caitlin Clark er frábær leikmaður og algjör lykilleikmaður hjá Iowa Hawkeyes. Getty/G Fiume

Caitlin Clark er fyrir löngu orðin stórstjarna í bandarísku íþróttalífi eftir frammistöðu sína í bandaríska háskólakörfuboltanum síðustu ár.

NBA stórstjörnur eru meðal þeirra sem hafa dásamað leik hennar og áhuginn á skólaliði hennar er rosalegur sem sést á því að miðar á leiki liðsins fjúka út.

Clark hafði leikandi getað komist að í WNBA deildinni en ákvað að klára fjórða árið sitt í Iowa skólanum. Hún er sannkölluð súperstjarna og WNBA liðin vonast til að fá fyrsta valrétt til að geta valið hana.

Clark er nú mætt aftur til leiks á lokaári sínu með Iowaa og hún var heldur betur í stuði í leik á móti Virginia Tech. Hún skoraði 44 stig í leiknum auk þess að gefa 6 stoðsendingar og taka 8 fráköst. Hún átti beinan þátt í 19 af 28 körfum Iowa liðsins.

Iowa þurfti líka á öllum hennar stigum að halda því liðið rétt marði sigur 80-76.

Kenny Brooks, þjálfari Virginia Tech, hristi bara hausinn þegar hann var spurður út í hvað hann reyndi til að hægja á Clark.

„Ég elska stelpurnar í mínu liði en stundum ertu að spila damm þegar mótherjinn er að spila skák. Hún er það góð,“ sagði Kenny Brooks.

Clark hefði getað verið með miklu fleiri stoðsendingar því liðsfélagar hennar fóru oft illa með sniðskot sem hún bjó til fyrir þá.

„Hún er einn allra besti leikmaður sinnar kynslóðar og við munum fá að fylgjast lengi með henni spila á mjög háu getustigi,“ sagði Brooks.

Eftir að leiknum lauk þá þyrptust að henni ungir krakkar í Iowa treyju númer 22 sem vildu fá eiginhandaráritun frá henni. Hún eyddi nokkrum mínútum í að gefa þær áður en hún var kölluð inn í klefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×