Sport

Í­þrótta­fé­lög sýna Grind­víkingum sam­stöðu

Ágúst Orri Arnarson og Smári Jökull Jónsson skrifa
Íþróttahús, knattspyrnuvöllur og sundlaug Grindavíkur
Íþróttahús, knattspyrnuvöllur og sundlaug Grindavíkur UMFG

Íþróttafélög á Íslandi sýna Grindvíkingum samstöðu eftir atburðarás síðustu daga. Neyðarstigi var lýst yfir í gærkvöldi vegna yfirvofandi eldgoss og bærinn rýmdur í kjölfarið. 

Erlendir leikmenn liðs Grindavíkur í körfuknattleik hafa komið sér fyrir á hóteli í Keflavík og bíða frekari frétta þaðan. Keflavík hefur boðið yngri flokkum félagsins húsnæði undir æfingar og Breiðablik bauðst til að hýsa meistaraflokksæfingarnar. 

Knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild Njarðvíkur bauð öllum iðkendum Grindavíkur á æfingar endurgjaldslaust og sendi þeim baráttukveðjur. Sama á við um Keflavík en þangað geta Grindvíkingar einnig mætt á æfingar.

CrossFit stöð Hveragerðis, Hengill, hefur boðið Grindvíkingum á æfingar til sín án endurgjalds. Þau sögðu mikilvægt að leggja sitt af mörkum á þessum erfiðu tímum og vona að fleiri fylgi þeirra fordæmi. 

Hestamannafélagið Ljúfur hefur boðið Grindvíkingum sína aðstoð við hýsingu eða að koma hrossum á beit. 

Líkamsræktarstöðin Afrek býður Grindvíkingum á æfingar án endurgjalds. 

KR hefur slegist í hópinn og boðið Grindvíkingum á æfingar hjá öllum deildum félagsins endurgjaldslaust. Iðkendur knattspyrnu í Grindavík stendur þá til boða að mæta á æfingar hjá Stjörnunni, Víkingi, Hamri, Selfossi, Haukum og Fylki. Fleiri félög hafa bæst í hópinn eftir því sem á hefur liðið daginn og ljóst að íþróttafjölskyldan stendur saman þegar á reynir.

Öllum sem vilja veita Grindvíkingum hjálparhönd er bent á síðu Rauða krossins og Aðstoð við Grindvíkinga 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×