„Jú og við rifumst og áttum okkar móment eins og systur og vinkonur gera. Það sem gerði þetta merkilegt var hversu fljótar við vorum að vinna úr því. Okkur langaði bara svo mikið að það væri ánægjulegt fyrir okkur allar að einhvern veginn tókst okkur að vera samt alltaf fyrst og fremst góðar við hvor aðra.“
Klara kom fram á tónleikaröðinni Bylgjan órafmögnuð á Stöð 2 Vísi á fimmtudaginn. Þar sagði hún áhorfendum frá Nylon-árunum og endurkomunni á Arnarhóli í sumar. Hægt er að horfa hér.
Spurð hvernig upplifunin hafi verið að flytja út í hinn stóra heim segir Klara hana hafa verið stórkostlega.
„Ellefu ár af lífi mínu og var þar sem ég byrjaði minn feril sem lagahöfundur. Ég var ekkert að semja tónlist áður en mjög fljótlega eftir að við fluttum til Bandaríkjanna, bara örfá ár inn í tímann minn þar var ég byrjuð að semja á fullu og uppgötvaði þann vettvang að það sé hægt að vinna við það.“

Sveitin hélt áfram sem The Charlies og kom fram bæði hérlendis sem og utan landsteinanna. Klara segir muninn á milli þjóða fyrst og fremst felast í tónlistinni sem var allt öðruvísi. „Miklu meira dansað, öðruvísi búningar og öðruvísi mindset. En þetta er alltaf það sama, ef maður hefur gaman að þessu og nýtur þess að koma fram skiptir ekki öllu máli hvað maður er að syngja bara meðan maður getur notið þess.“

Nylon kom sem þekkt er nýverið aftur saman og segir Klara tilfinninguna geggjaða.
„Við erum enn að fá skilaboð um fólk sem varð klökkt og fékk tár í augun og ég fæ tár í augun að fá þessi skilaboð. Að þetta hafi snert svona marga. Kannski er það það sem gerði þetta svona gott okkar á milli að við umkringdum okkur alltaf af þessum stelpum sem höfðu aldrei áður séð fjórar íslenskar stelpur saman í hljómsveit. Það hafði ekki verið gert í þessari pakkningu áður og ég held að það hafi verið mikilvægt og var alveg æðislega skemmtilegt. Það var geggjað að gera þetta aftur fullorðnar. Þetta var dásamlegt kvöld, menningarnótt.“