Þjóðin stóð á öndinni yfir þáttunum enda komst Magni alla leið í úrslitaþáttinn þar sem tekist var á um það hver yrði forsöngvari í hljómsveitinni Supernova. „Við fórum þrjú saman út í fyrstu umferðina, ég, Hreimur og Heiða Ólafs. Svo fórum við bara heim eftir tvær vikur í einhverskonar fyrirprufum,“ segir Magni en hann er nýjasti gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpsþættinum Einmitt. Þar greinir hann meðal annars frá Rock star: Supernova ævintýrinu og samvistum sínum við Tommy Lee og félaga í Los Angeles.
Óskaði eftir því að vinna ekki
„Síðan kom bara símtal frá framleiðendum þegar ég var að labba inn í Miðgarð til að spila á balli með Á móti sól þarna um vorið 2006 og mér var boðið að koma út aftur.“ Það sem gerðist í kjölfarið er flestum kunnugt en Magni rifjar upp fjölda atvika sem hann hefur ekki sagt frá áður eins og það að hann og annar keppandi Toby Rand sem fylgdi Magna alveg í lokaþáttinn óskuðu eftir fundi með framleiðendum.
„Ég var einhvern veginn settur í að tala fyrir okkar hönd og á fundinum óskuðum við eftir því að vinna alls ekki.“
Vildi ekki enda í hljómsveit með Tommy Lee
Ástæðan fyrir því var sú að þeim Toby og Magna leist ekkert á það að taka að sér að syngja með hljómsveit Tommy Lee.

„Þetta var bara léleg hjómsveit og lögin sem þeir voru búnir að vinna fyrir plötuna voru alls ekki góð.“
Markmið þáttanna var engu að síður það að finna forsöngvara í hljómsveit Tommy og fylgja plötunni eftir með tónleikaferð um heiminn.
Magni jós hinsvegar hljómsveitina lofi sem spilaði undir í þáttunum sjálfum sem skipuð er mörgum af eftirsóttustu tónlistarmönnum í heimi í dag.
Tommy Lee sjúkur í Ragnhildi Steinunni
Þegar komið þarna var komið við sögu og dagana fyrir lokaþáttinn var nokkur hópur Íslendinga kominn út til Los Angeles til að fylgjast með lokakvöldinu. Ein þeirra var fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn.
„Það var mjög fyndin upplifun því eina sem Tommy Lee og félagar voru að velta fyrir sér þarna síðasta daginn var hver þessi sjónvarpskona frá Íslandi væri og hvort ég gæti ekki útvegað þeim símanúmerið hennar.“
Vaknaði um miðja nótt með verki, svima og ógleði
Í viðtalinu greinir Magni jafnframt frá álaginu sem fylgir því að vera í tíu starfandi hljómsveitum og rauða flaggið sem hann fékk í ágúst þegar hann var keyrður með bláu ljósin á sjúkrahúsið á Akureyri og hvernig bóndasonurinn frá Borgarfirði eystri reynir að minnka álagið.

Aðfaranótt sunnudagsins 14. ágúst síðastliðinn var Magni keyrður á sjúkrahús. Hann vaknaði á hótelherbergi á Sauðárkróki þangað sem að hann hafði keyrt eftir að hafa skemmt á Fiskideginum mikla.
Þar var Eyrún konan hans stödd með son þeirra á íþróttamóti. Magni vaknaði um miðja nótt með verki, svima og ógleði og var á endanum fluttur með hraði í sjúkrabíl á sjúkrahús á Akureyri eftir stutt stopp á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Eftir rannsóknir var Magni útskrifaður en fer sér núna aðeins hægar en áður og er að jafna sig.
Þáttinn í heild má hlusta á hér fyrir neðan.