Þessi mynd kom upp í hugann á tónleikum GusGus í Eldborg í Hörpu á laugardagskvöldið. Ég held að hvert einasta lag á dagskránni hafi verið í moll. Mollinn er drungalegri en dúrinn, og tónlist GusGus var skuggaleg. En á góðan hátt; hún var ávallt grípandi, bassinn flottur, takturinn eggjandi og hljómarnir sem flutu yfir létu vel í eyru. Stuðið á tónleikunum var þvílíkt að enginn sat kyrr. Fólk bara dansaði með.
Tólfta platan á næstum þrjátíu árum
GusGus gaf nýverið út tólftu breiðskífuna sína, DanceOrama og á tónleikunum voru flutt nokkur lög af henni. Þar á meðal var Unfinished Symphony, eða Ófullgerð sinfónía. Hljómagangurinn var óvanalegur og lagið fór eitthvert allt annað en maður bjóst við í byrjun. Það endaði líka furðulega, alveg fyrirvaralaust. Þannig séð var það ófullgert.
Líklega er lagið óður til danstónlistarinnar á níunda áratugnum, það er a.m.k. ákveðin nostalgía í því. En það er skemmtilegt og grípandi, enda var því ákaft fagnað á tónleikunum af æstum áheyrendunum.
Sveitt stemning
DanceOrama er flott plata, en tónlistin á henni hljómaði ennþá betur í lifandi flutningnum á tónleikunum. Þannig er það oft. Plötur eru svo gerilsneyddar í dag, og tónlist GusGus er fyrst og fremst sveittur seiður sem ekki er annað hægt en að dansa við.
GusGus hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina, sem er orðin býsna löng, næstum því þrjátíu ár. Núverandi meðlimir eru Daníel Ágúst Haraldsson, Margrét Rán Magnúsdóttir og Birgir Þórarinsson. Þau tvö fyrstnefndu sungu í flestum lögunum og Birgir stjórnaði raftónlistinni.
Myrk og sexí
Hljóðfæraleikurinn var aldrei lifandi, hið eina sem var á lífi var söngurinn. Um hvað var sungið skipti ekki höfuðmáli, aðalatriðið var hvernig raddirnar blönduðust við tölvutónlistina. Heildarmyndin var afskaplega sannfærandi, myrk og sexí.
Þetta voru skemmtilegir tónleikar. Flutningurinn hjá Daníel og Margréti var fyrirtaksgóður. Daníel er mikill sviðsmaður og hann dansaði eiginlega allan tímann. Það var augnayndi. Margét var innhverfari, jafnvel dálítið vélræn, sem féll fullkomlega að köldum rafhljómunum og miskunnarlausum bassatónunum.
Ég man eftir tónleikum GusGus á Nasa fyrir mörgum árum síðan. Þeir voru líka frábærir. Söngkonan þá, sem ég man ómögulega hver var, kvaddi tónleikagesti í lokin með því að segja: „Við erum GusGus... og þið eruð geðveik!“ Ég held að það sama hafi alveg átt við núna. Stemningin á tónleikunum var svo sannarlega tryllt.
Niðurstaða: Afar vel heppnaðir og skemmtilegir tónleikar.