Bjarni er nýjasti gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpinu Einmitt. Í þættinum ræða þeir um ofbeldismenningu mannkyns, mikilvægi nándar og tengsla í bata og hversu miklu máli skiptir að lifa af alefli, svo fátt eitt sé nefnt.
„Ef við getum ekki stungið upp höfðinu, hvað erum við þá að gera hérna? Við verðum að una þeirri staðreynd að lífið er háskalegt og enginn kemst undan því. Það er flókið að vera manneskja en við sem tegund á þessari jörð höfum gríðarlega mikla tilhneigingu til að valda tjóni. Og hver fjárinn er það?“ segir Bjarni á einlægum nótum.
Þurfum á hvert öðru að halda
Í því samhengi nefnir hann mannlegt markaleysi og hvernig það endurspeglast í muninum á hörmungunum í Grindavík og á Gaza. Annars vegar af völdum náttúrunnar, sem við höfum enga stjórn á og hins vegar mannvonsku.
„Allt í einu skapast tilgangur; vakandi innviðir eins og björgunarsveitir og íslenskt samfélag. Við kunnum að standa saman þegar í harðbakkann slær og leggjum til hliðar allan ágreining. Kunnum að vera manneskjur,“ segir Bjarni.
„Þegar fólk er framandi hvert öðru og fólk þorir ekki að gera mistök því það verður dæmt harkalega.
Túlkunarvandi er svo víða í gangi. Ef ég vil skána, er í djúpum skít og vil ná bata, þá gerist það allt í nándinni og tengslum. Þess vegna þurfum við hvert á öðru að halda.“
Ráðist að kjarna persónunnar
Í sinni prestlegu sálgæslu, eins og hann orðar það sjálfur, hefur hann mikið unnið með þolendum kynferðislegs ofbeldis. Bjarni segist hafa lært ótrúlega margt um kynferðisofbeldi og áhrif þess á heilsu fólks.
„Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að væri svo mikil regla, ekki undantekning. Ákveðið mynstur, t.d. hjá fjölskyldum þar sem barnaníð hefur haft sína farvegi eða í samfélagi þar sem aðgangur að líkama kvenna er eitthvað sem bara gerist. Það að vera þolandi kynferðisofbeldi er rosaleg árás á heilsu fólks. Eins og með kjarnorkusprengju. Geislunaráhrif ætla aldrei að hætta. Þetta er verra en annað ofbeldi. Það er kjarninn í mennskunni að stíga úr fyrir sjálfan sig og mynda kynferðissamband við aðra manneskju. Þarna er ráðist að kjarna persónunnar,“ segir hann.
Þáttinn má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: