Lánleysi Everton heldur á­fram

Siggeir Ævarsson skrifar
Alejandro Garnacho hleður í draumamarkið
Alejandro Garnacho hleður í draumamarkið Vísir/Getty

Everton tók á móti Manchester United í fyrsta leik sínum eftir að tíu stig voru dregin af liðinu fyrir brot á fjármálareglum ensku úrvalsdeildarinnar. Lánleysi liðsins hélt áfram en United vann öruggan 0-3 sigur.

United fékk sannkallaða draumabyrjun í upphafi leiks þegar Garnacho skoraði það sem verður mögulega mark tímabilsins hjá liðinu. Dalot sendi fastan bolta fyrir utarlega í teiginn þar sem Garnacho henti í lauflétta bakfallsspyrnu og boltinn söng í fjærhorninu. Gjörsamlega óverjandi fyrir Pickford í markinu.

Everton spilaði ágætlega í fyrri hálfleik en Onana var vel á verði í markinu. Heimamenn voru á köflum ósáttir við ákvarðarnir John Brooks dómara og ekki urðu þeir kátari 53. mínútu þegar Ashley Young felldi Martial þegar hann var að sleppa í gegn og United fengu vítaspyrnu.

Brooks dæmdi að vísu dífu fyrst og spjaldaði Martial fyrir leikaraskap en ákvörðuninni var snúið við í VAR-herberginu, enda brotið augljóst. Young raunar stálheppinn að fá ekki sitt annað gula spjald fyrir brotið.

Marcus Rashford fór á punktinn og skoraði af öryggi, aðeins hans annað mark á tímabilinu.

Martial, sem lék í fremstu víglínu hjá United í dag í fjarveru Höjlund, innsiglaði svo sigur gestanna á 75. mínútu þegar hann afgreiddi boltann snyrtilega yfir Pickford í marki Everton en þetta var 9. markið sem Martial skorar á móti Everton.

Með sigrinum fer Manchester United upp í 6. sæti, tveimur stigum á eftir Tottenham og sex stigum frá Arsenal sem situr í toppsæti deildarinnar þegar toppliðin hafa leikið 13 leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira