Lífið

Ástin og þráin alltaf eins

Lovísa Arnardóttir skrifar
Rakel Adolphsdóttir segir að á viðburðinum verði farið yfir helstu ástarbréf Kvennasögusafnsins.
Rakel Adolphsdóttir segir að á viðburðinum verði farið yfir helstu ástarbréf Kvennasögusafnsins. Vísir/Vilhelm

Sagnfræðingur segir ástina alltaf eins. Það megi lesa úr gömlum ástarbréfum sem séu til á Kvennasögusafninu. Oftast sé þráin mest í upphafi sambands og svo taki meiri praktík við. Skekkja sé þó í safninu því flest bréfin komi frá pörum þar sem kom til sambands. Önnur hafi líklega endað í eldinum. 

„Það eru einhver ástarbréf, en þau eru mjög fágæt. Það kom mér í raun á óvart hvað ég leit á mörg söfn þar sem voru engin ástarbréf. En var að finna bréf frá eiginmanni til eiginkonu sem voru af praktískum toga,“ segir Rakel Adolphsdóttir sagnfræðingur um fjölda ástarbréfa á Kvennasögusafninu.

Rakel ætlar á mánudag að fjalla um hvers konar ástarbréf eru afhent safninu til varðveislu, hver skrifaði þau og fyrir hvern, hvernig aðgengi er að þeim sem og hvernig er að kafa ofan í einkalíf annarra í fræðilegum tilgangi. Það mun hún gera á sérstöku fræðakaffi á vegum Borgarbókasafnsins í Spönginni.

En er ástin ekki alltaf eins?

„Það er ótrúlega skemmtilegt að lesa bréfin. Öll nema eitt þeirra sem ég er að fjalla um voru skrifuð fyrir meira en 80 árum og eru því í eldri kantinum. En ástin er alltaf eins, og þráin,“ segir Rakel.

Hún segir að hún hafi flokkað bréfin í þrjá flokka.

„Þetta eru oftast ungt fólk, í upphafi sambands, sem ganga svo síðar í hjónaband. Þetta er tilhugalífið og það sem býr til bréfin eru fjarlægðir. Þá er svo mikil þrá og ósk eftir nándinni.“

„Bréfið er tveir og hálfur metrar og það er skrifað báðu megin. Bréfið átti að vera nógu langt til að umvefja hana,“ segir Rakel um bréfið á myndinni. Það skrifaði Sigurbjörn Á Gíslason til Guðrúnar Lárusdóttur á meðan hann var prestur í Danmörku. Þau giftust ári eftir að bréfið var skrifað. Kvennasögusafn

Hún segir það áhugavert í bréfunum að karlmenn virðist miklu heitfengari en konur en segir að það geti helgast af tímanum sem þau eru skrifuð á.

„Konur eru einhvern veginn lágstemmdari eða hlédrægari. Það er öðruvísi tónn í bréfum þeirra. Það gæti verið eitthvað í samskiptum sem veldur því en það er ekki algilt. Þær lýsa líka þrá en eru kannski meira undir rós á meðan karlmennirnir segja það berari orðum sem þeir eru að hugsa.“

Rakel segir það ekki algilt að samböndin endi með giftingu. Sem dæmi sé eitt bréf skrifað af pari þar sem sambandið enda með sambandsslitum. 

„Þau ganga ekki að eiga hvort annað. Það er fólk af lægri stétt, verkafólk. Þau búa með öðrum og eru að stelast til að skrifa og virðist ekki geta stofnað til búskaps sjálf. Þessi bréf eru skrifuð um 1930,“ segir Rakel.

Afkomendur komi með bréfin

Hún segir einnig bréf þar sem kona skrifar til annarrar konu en segir að sambandsstaða þeirra liggi ekki fyrir.

„Þar er til dæmis ein kona að lýsa því hvernig hún vilji kyssa aðra konu en svo vitum við ekkert hvort hún fékk svarbréf eða hvernig það hefur litið út,“ segir Rakel og að yfirleitt sé ekki bréf beggja á safninu nema sambandið hafi endað í hjónabandi. Það sé vegna þess að bréfin komi yfirleitt til þeirra í gegnum afkomendur.

„Ef afkomendur koma með þau eru það yfirleitt bréf beggja aðila og er eitthvað sem endaði vel. Með börnum og buru og er þá eitthvað sem börnin halda upp á. Þegar þau eru orðin fullorðin koma þau svo með bréfin,“ segir Rakel og að þannig sé ákveðin skekkja því yfirleitt rati það bara til þeirra sem endi vel.

„Það sem ekki rataði í eldinn. Því oft er talað um að brenna bréfin. Það er sterkt þema,“ segir Rakel og hlær.

Heldurðu að fólk sé enn að skrifa ástarbréf?

„Ég held að þau skrifi ástarskeyti, eða ástarsendingar. Ég held að það sé ekki mikið af bréfum skrifuð í dag sem þú getur haldið á og snert og lesið aftur og aftur. Þau eru að verða mjög fágæt. Kannski verður þetta til þess að fleiri skrifi bréf,“ segir Rakel og að hún viti til þess að eldri konur jafnvel vorkenni þeim yngri að fá ekki að upplifa þetta. Að skrifa bréf, bíða eftir svari og fá það svo.

Á myndinni er bréf Guðrúnar Lárusdóttur til Sigurbjarnar Á Gíslasonar. Rakel segir að oft hafi fylgt hárlokkur eða mynd með bréfum. Kvennasögusafn

„Að fá ekki að þroska sambandi í gegnum bréfaskriftir. Það er allt öðruvísi að skrifa margar blaðsíður af hugsunum og tilfinningum en að skrifa það í stuttu skeyti.“

Rakel segir að samhliða tækniframförum sjái hún breytingar í bréfunum. Sem dæmi í kringum 1940 séu breytingar á bréfunum. Þá hafi síminn verið kominn en símstöðin enn hlustað á öll samtölin.

„Þau gátu ekki sagt frá sínum dýpstu þrám og það rataði því kannski frekar í bréfin.“

Rakel Adolphsdóttir segir stundum óþægilegt að lesa bréfin. Sumir segi beint út að þeir voni að aldrei lesi neinn það sem þau skrifi um þrár sínar og ást. Vísir/Vilhelm

Hún segir ekki algengt að finna ástarbréf á söfnum en að eflaust séu þau mörg þar. En ekki þannig flokkuð. Hún segir að það geti allir komið með ástarbréf á safnið. Þegar fólk komi með slíkt fylgi slíkum gjöfum oft skilmálar um að ekki megi opna þau fyrr en eftir 80 eða 20 ár eða eitthvað slíkt.

Hún segir fræðakaffið opið öllum á mánudag. Það geti allir komið og hlustað.

„Það er gaman að gera þetta fyrir aðventuna í ró og kertaljósi. Ég held þetta verði hugguleg stund í skammdeginu.“


Tengdar fréttir

Bjóða fólki að senda ástarbréf frítt

Um helgina og fram á Valentínusardag, sem er næsta þriðjudag, verður sérstakur hjartapóstkassi staðsettur í Kringlunni þar sem fólk getur skrifað eldheita ástarkveðju og póstlagt frítt með Póstinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×