Handbolti

„Kassann út og berum enga virðingu fyrir þeim“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fékk frumraun á HM í afmælisgjöf.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fékk frumraun á HM í afmælisgjöf. Vísir/Valur Páll

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins, er klár í slaginn fyrir leik Íslands við Frakkland á HM í dag. Leikmenn liðsins þurfi að mæta Frökkum af fullum krafti.

Ísland tapaði fyrir Slóveníu í fyrsta leik þar sem slæm byrjun hafði mikið að segja. Stelpurnar okkar sýndu mikinn karakter til að vinna sig inn í leikinn þó svo að úrslitin hafi ekki fallið með liðinu.

„Ég var bara svo stolt af liðinu. Mér fannst við svo flottar að vinna okkur aftur inn í leikinn eftir þessa erfiðu byrjun. Jú sárt að vinna ekki leikinn eða ná jafntefli en fyrst og fremst ótrúlega stolt og það sýnir karakter að við getum komið til baka gegn svona sterku liði.“ segir Elín Jóna sem vonast til að mesti taugatitringurinn sé farinn eftir frumraunina.

„Vonandi. Við verðum að sjá hvernig við gírum okkur í leikinn á móti Frakklandi, vonandi getum við strítt þeim og sýnt hvað í okkur býr.“

Fá eitthvað út úr hverjum leik

Ísland mæti þá ekki í leik dagsins til þess eins að taka þátt.

„Við erum geggjað góðar og við viljum fá eitthvað út úr öllum leikjum. Ef ekki sigur eða jafntefli þá allavega eitthvað í reynslubankann. Við viljum gefa þeim leik þó við vitum að þær séu á pappírnum betri,“

„Ég býst við því að við setjum kassann út og berum enga virðingu fyrir þeim þegar komið er inn á völlinn,“ segir Elín Jóna.

Ísland mætir Frakklandi klukkan 17:00 í DNB-Arena í Stafangri í dag. Vísir fylgir liðinu eftir hvert fótmál og færir allar nýjustu fréttir af liðinu eftir því sem þær berast.


Tengdar fréttir

Skýrsla Vals: HM er okkar heimavöllur

Stelpurnar okkar sýndu frábæra frammistöðu í rúmar 45 mínútur gegn sterku liði Slóveníu í dag. Eftir upphafskaflann hefði mér ekki dottið í hug að hugsunin „djöfull hefðum við getað unnið þennan leik“ væri efst í huga eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×