Verðlaunin eru fyrst og fremst hugsuð sem hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.

Auglýst er eftir tilnefningu á hverju ári og geta allir sent inn tilnefningar fyrir framúrskarandi ungan Íslending. Sérstök dómnefnd fór svo yfir tilnefningar og valdi úr tíu einstaklinga sem fá viðurkenningu og þar af einn verðlaunahafa.
Anníe Mist var ein af þeim sem var tilnefnd að þessu sinni og hún sagði frá þessu á samfélagsmiðlum í gærkvöldi. Hún fékk þó ekki aðalverðlaunin því þau fóru til Anítu Sóleyju Scheving Þórðardóttur fyrir framlag hennar til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.
Anníe er tilnefnd fyrir einstaklingsafrek. Hún hefur ekki aðeins staðið sig vel í CrossFit íþróttinni sjálfri heldur er hún einnig viðskipta- og rekstrarkona sem er með alls konar spennandi verkefni í gangi fyrir utan CrossFit íþróttina.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Sólinni, Háskóla Reykjavíkur ásamt Margréti Helgu Gunnarsdóttur, landsforseta JCI.
Anníe var á staðnum og fékk viðurkenningu sína frá forsetanum. Hún birti mynd af þeim saman og sagði fylgjendum sínum frá því að hún væri ein af framúrskarandi ungum Íslendingum 2023.
Katrín Tanja vakti einnig athygli á þessu með því að deila færslu vinkonu sinnar. Þetta voru samt engar fréttir fyrir Katrínu. Hún skrifaði þó textann á íslensku sem er ekki vanalegt enda stór hluti fylgjendahóps hennar frá öðrum löndum heimsins.
„Alltaf vitað að hún Anníe mín væri framúrskarandi en hún var loksins að fá viðurkenningu fyrir það,“ skrifaði Katrín Tanja og bætti við „Heimsins best“ fyrir neðan.