Gísli átti stóran þátt í því að lið hans Magdeburg varð Evrópumeistari, en hann spilaði úrslitaleikinn við Kielce þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona. Hann var valinn verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar.
Eftir að Evrópumeistaratitillinn var í höfn í júní fór Gísli í aðgerð vegna meiðslanna og var talið að hann yrði frá keppni í sex mánuði.
Í gær var Gísli hins vegar kominn aftur á leikskýrslu hjá Magdeburg, þegar liðið mætti Porto í Portúgal og vann 40-31 sigur í Meistaradeildinni.
Gísli kom hins vegar ekkert við sögu í leiknum, en sá félaga sína úr landsliðinu þá Ómar Inga Magnússon og Janus Daða Smárason skora samtals 15 af mörkum Magdeburg. Janus Daði var fenginn til Magdeburg í sumar í ljósi meiðsla Gísla.
Magdeburg spilar næst á sunnudaginn, við Melsungen í þýsku 1. deildinni. Liðið á fimm leiki eftir fram að hléinu vegna EM í Þýskalandi.